Dótturfyrirtæki rússnesks ríkisrekins orkufyrirtæki segir að klukkan eitt í nótt verði þau að hætta að flytja inn rafmagn til Finnlands. Frá þessu er greint á vef Guardian og vísað í tilkynningu frá RAO Nordic, orkufyrirtæki sem er dótturfélag ríkisrekins orkufyrirtækis í Rússlandi. Tilkynningin kemur eftir að að Finnland tilkynnti að þau ætli að ganga í NATO en því hafa Rússar verið mjög mótfallnir.
Í tilkynningu á vef RAO Nordic kemur fram að þau neyðist til þess að hætta innflutningi á rafmagni og vísa til þess að fyrirtækið sem hafi séð um flutninginn, Nord Pool, hafi ekki greitt fyrir innflutning rafmagnsins frá því 6. maí.
„Þetta er einstök staða og þetta er í fyrsta skipti í tuttugu ára viðskiptasögu okkar sem þetta gerist,“ segir í tilkynningunni og að þau vonist til þess að bætt verði úr þessu sem fyrst.
Á sænska vefnum SVT kemur fram að um tíu prósent orkunotkunar Finna sé innflutt rafmagn frá Rússlandi og að því ógni þetta ekki orkuforða Finna og að það sé hægt að bæta úr því sem þau tapa frá Rússlandi með rafmagni frá Svíþjóð og með finnski framleiðslu.
Í gær var einnig greint frá því í erlendum miðlum að Rússar hafi hótað að hætta að senda gas til Finnlands en það er aðeins um fimm prósent af allri orkunotkun þeirra.