Mannfall óbreyttra borgara sem og hermanna og niðurbrot innviða er ekki eini harmleikurinn sem innrás Rússa inn í Úkraínu hefur leitt af sér. Tortíming og skemmdir menningarminja og stofnana hafa einnig átt sér stað í stórum stíl. Samkvæmt heimsminjaskrá UNESCO og menningarmálaráðuneyti Úkraínu beina Rússar spjótum sínum sérstaklega að kirkjum, söfnum, leikhúsum og öðrum menningarlega mikilvægum svæðum.

Ráðuneytið hefur skrásett alls 370 atvik sem það skilgreinir sem stríðsglæpi Rússa gegn menningu Úkraínu. Hafi þessum árásum sífellt fjölgað á undanförnum vikum.

Samkvæmt miðlinum Euronews hafa alls 9 staðir með menningarsögulegt gildi verið gjöreyðilagðir, í og við borgirnar Kænugarð, Dónetsk, Súmí og Tjérnihív. Mörg hundruð staðir hefi verið skemmdir, þar af 51 alvarlega.

Þegar kemur að byggingum hafa 133 kirkjur og aðrar trúarlegar byggingar verið gjöreyðilagðar. Einnig 74 leikhús, bókasöfn og menningarhús og 26 söfn. 42 styttur af fólki og viðburðum úr úkraínskri sögu frá 19. og 20 öldinni hafa verið eyðilagðar.

UNESCO hefur lýst yfir alvarlegum áhyggjum af ástandinu og kallað eftir að menningarminjar fái meiri vernd fyrir eyðileggingunni. „Við þurfum að varðveita menningarminjar Úkraínu, bæði sem minnisvarða um fortíðina en einnig sem hvata fyrir frið og samheldni til framtíðar sem alþjóðasamfélagið hefur skyldu til að varðveita,“ sagði Audrey Azoulay, framkvæmdastjóri UNESCO í yfirlýsingu.

Strax í mars skoraði UNESCO á Rússa að hætta öllum árásum, stuldi og eyðileggingu á menningarminjum í Úkraínu. Rússar hafa hins vegar svarið fyrir að hafa gert það.

Úkraínumenn hafa hins vegar kallað eftir því að Rússar verði reknir úr UNESCO. „Rússar hundsa alla alþjóðasamninga og reglur, sem sýnir að þeir eru óhæfir til að starfa með siðmenntuðum hætti í alþjóðasamfélaginu,“ segir í yfirlýsingu menningarmálaráðuneytisins.