Rússar hafa gefið það út að þeir muni neita em­bættis­mönnum innan Evrópu­sam­bandsins inn­göngu inn í landið en em­bættis­menn Frakk­lands, Þýska­lands og Sví­þjóðar, voru kallaðir inn til utan­ríkis­ráðu­neytis Rússa þar sem þeir voru látnir vita af málinu. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.

Um er að ræða hefndar­að­gerðir af hálfu Rússa en Evrópu­sam­bandið beitti em­bættis­menn Rússa þvingunar­að­gerðum í kjöl­far eitrunar Alexei Naval­ny fyrr í haust. Naval­ny var í lífs­hættu síðast­liðinn ágúst eftir að hann komst í tæri við tauga­eitrið Novachok, sam­bæri­legt eitur og var notað gegn rúss­neska njósnaranum Sergei Skripal og dóttur hans í Eng­landi árið 2018.

Neita sök

Rúss­nesk yfir­völd hafa þver­tekið fyrir það að þau tengist á­rásinni en stuðnings­menn Naval­ny, sem er einn helsti stjórnar­and­stæðingur Vla­dí­mír Pútín Rúss­lands­for­seta, halda því fram að Pútín hafi fyrir­skipað á­rásina. Naval­ny sjálfur fékk síðan út­sendara rúss­nesku leyni­þjónustunnar, FSB, til að játa að teymi á vegum FSB hafi verið á bak við á­rásina.

Út­sendarinn, Konstantin Kudrya­vt­sev, sagði í sím­tali við Naval­ny, sem þóttist vera hátt settur em­bættis­maður innan FSB, að eitrinu hafi verið komið fyrir í nær­buxum Naval­ny. Þá sagði hann að eitrið hefði átt að verða Naval­ny að bana en þar sem hann komst fljótt undir læknis­hendur þá hafði eitrið ekki til­ætluð á­hrif.

Ekki liggur fyrir að hverjum refsi­að­gerðir Rússa beinast en ráðu­neytið segir að að­gerðunum verði beitt gegn em­bættis­mönnum og stofnunum innan ESB.