Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur lagt dagsektir á lóð við Leifsgötu 4b. Eftirlitið hefur gert ítrekaðar kröfur um að eigandi hreinsi lóðina auk annarra samskipta. Á lóðinni er timbur, málmur, plast og annar úrgangur sem er lýti fyrir umhverfið og veldur hljóðmengun, segir í bréfi eftirlitsins til eiganda íbúðarinnar en málefni Leifsgötu var tekið fyrir á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur í síðustu viku.

Þeir nágrannar sem Fréttablaðið ræddi við í gær eru sammála um að það sé ekki sómi fyrir hverfið að hafa hjólhýsi eða gúmmíbát í portinu. Enginn var heima þegar Fréttablaðið bankaði upp á.

Í bréfinu segir að farið hafi verið í eftirlitsferð 27. október síðastliðinn og kannað á ný hvort ruslið hafi verið hreinsað þann 30. nóvember. Aðeins hafi verið búið að hreinsa hluta af lausamununum og úrgangi. Ný kvörtun barst í febrúar og var haldið af stað í eftirlitsferð að nýju. „Enn var ekki búið að hreinsa lóðina, þvert á móti var búið að bæta úrgangi og lausamunum við. Á lóðinni mátti finna fjórar til sex þvottavélar ásamt vélarhlut úr þvottavél, ísskápa, lítinn bát, járnagrindur, dekk, slöngur, timbur, plast og annan almennan úrgang,“ segir í bréfinu.

Þá var veittur lokafrestur til 17. febrúar, annars þyrfti að fara í frekari aðgerðir. Nú virðist mælirinn orðinn fullur og hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur því ákveðið að leggja dagsektir á eigandann.

„Þetta er fínn strákur en það fylgir honum vissulega mikið drasl,“ segir einn nágranni sem var feginn að það væri komin hreyfing á málið. „Ég get alveg trúað að fólk í Leifsgötu númer fjögur sé orðið svolítið þreytt á þessu ástandi,“ sagði annar.

Íbúar á Leifsgötu 4 vildu ekkert segja annað en að þeir vildu kynna sér niðurstöðurnar.

Það mátti þó heyra gleðitón í röddum þeirra yfir að eitthvað væri að gerast. Það hefði tekið svolítið á að þurfa að vesenast í málinu.