Fleiri fullorðnir meta andlega heilsu sína slæma, ungmenni drekka minna áfengi en sofa ekki nóg, og borgarbúar hafa gott aðgengi að grænum svæðum nálægt heimilum sínum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í Lýðheilsuvísum Reykjavíkurborgar 2022 sem hafa verið birtir á vef borgarinnar.
Fleiri borgarbúar upplifa einmanaleika
„Þeir vísar sem dregnir eru fram að hvert ár eru mismunandi en við val á þeim er sjónum beint að áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna,“ segir Harpa Þorsteinsdóttir verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjavíkurborg í tilkynningu um þá.
Hún segir það áhyggjuefni hversu stór hluti íbúa upplifir andlega og líkamlega heilsu sína slæma og það er ákveðin stigmögnun í hópi þeirra sem upplifir einmanaleika en alls upplifa 14,1 prósent borgarbúa sig einmana miðað við 11 prósent árið 2020. Á sama tíma sýna vísarnir að lægra hlutfall borgarbúa upplifir sig hamingjusama, eða alls 52,1 prósent miðað við 57,7 prósent árið 2020.
„Við þurfum að bregðast við þessu. Það er mikilvægt fyrir okkur sem störfum að heilsueflingu og forvörnum að skoða vel hvernig ákveðnir þættir eru að þróast og vísarnir gefa okkur grunnhugmynd að því hvernig samfélagið er að þróast út frá þeim gögnum sem hefur verið safnað,“ segir Harpa.
Drekka orkudrykki og sofa of lífið
Ef litið er til lýðheilsu barna má sjá að mjög mikil aukning er meðal ungmenna í framhaldsskóla sem drekka orkudrykki daglega. Alls segjast 53,4 prósent drekka orkudrykki daglega, það hlutfall var 44,9 prósent árið 2020 og er því aukningin veruleg. Á sama tíma hefur einnig aukist hlutfallið meðal framhaldsskólanema sem sofa sjö klukkustundir eða minna. Það er nú 45,5 prósent en var 42,5 prósent árið 2020.
Það lækkar mjög hlutfall þeirra sem hafa orðið drukkin síðustu 30 daga og er nú aðeins 5,7 prósent en var átta prósent árið 2020.
Hvað varðar einmanaleika má segja það sama um börn og fullorðna en nú segja um 14,3 prósent grunnskólanema sig einmana en hlutfallið var 12,5 prósent árið 2020.
Lýðheilsuvísar Reykjavíkurborgar eru birtir árlega og voru fyrst birtir árið 2019. Hægt er að nálgast þá á vef borgarinnar en þar er einnig fjallað um aðgengi að grænum svæðum og notkun almenningssamgagna.