Sam­kvæmt Hag­stofu Dan­merkur (DST) hefur orðið veru­leg fjölgun á læknum sem eru lærðir er­lendis. Alls störfuðu 2.100 læknar sem höfðu fengið þjálfun er­lendis á dönskum sjúkra­húsum og sem heimilis­læknar árið 2017. Það er fjölgun um 300 lækna, eða 19 prósent, frá árinu 2010.

Andreas Ru­dkjøbing, for­maður danska lækna­fé­lagsins, sagði að þetta sýndi að ekki hefði verið unnt að koma til móts við þarfir danska heil­brigðis­kerfisins með ráðningum á læknum þjálfuðum í Dan­mörku. Því hafi þurft að fylla laus störf með læknum menntuðum er­lendis.

Sam­kvæmt greiningu DST voru 18 prósent sjúkra­hús­lækna og heimilis­lækna í dreifðari byggðum er­lendir ríkis­borgarar. Á lands­vísu var hlut­fallið 9 prósent. Af læknum menntuðum er­lendis eru f lestir þýskir ríkis­borgarar (247 talsins), síðan pólskir (219), þá Írakar (163), Lit­háar (156) og Rússar (109). Þá eru einnig margir læknar frá Afgan­istan, Íran, Ung­verja­landi, Rúmeníu og Noregi.

Ru­dkjøbing segir gæði læknis­þjónustunnar og öryggi sjúk­linga vera lykil­at­riði í þessu sam­hengi, en ekki hlut­fallið sem slíkt. Sam­kvæmt gildandi reglum er þess krafist af læknum þjálfuðum utan Norður­landa og Evrópu­sam­bandsins að þeir ljúki nám­skeiðum til að þeir geti starfað sem læknar í Dan­mörku. Þar á meðal er dönsku­próf, próf í læknis­fræði­legri þekkingu og skilningi á dönskum lækna­lögum.

Í við­tali við Jylland­s­Posten segir Ru­dkjøbing að hann sé fylgjandi því að krafa um að standast dönsku­próf nái einnig til lækna frá Evrópu­sam­bands­ríkjum. Undir það hafa full­trúar ýmissa stjórn­mála­flokkar tekið, svo sem Sósíal­demó­krata, Danska þjóðar­flokksins og Rauð­græna banda­lagsins.