Alls voru 205 einstaklingar víðs vegar um Evrópu handteknir í vikunni fyrir aðild að skipulagðri smyglstarfsemi á fólki, sem velti um 152 milljónum evra, yfir 21 milljarði króna, á rúmu ári. Innanríkisráðherra Austurríkis, Gerhard Karner, greindi frá þessu og að um helmingur þeirra sem væru í haldi hefði verið handtekinn í Austurríki.

Í þýskum fjölmiðlum er talað um að umræddir smyglarar hafi á rúmu ári smyglað rúmlega 36 þúsund manns frá ársbyrjun 2021. Flestir einstaklingarnir komu frá Sýrlandi og greiddu á bilinu sem nemur 420-630 þúsund krónum fyrir aðstoð við að komast frá Ungverjalandi til Austurríkis þar sem þeir fengu síðar aðstoð við að komast ýmist til Belgíu, Frakklands, Hollands eða Þýskalands.

Höfuðpaurinn er tæplega þrítugur Rúmeni og voru einstaklingar handteknir í Tékklandi, Ungverjalandi, Slóvakíu og Rúmeníu. Þá gerði lögreglan upptækar 80 bifreiðar sem voru sérhannaðar til að smygla fólki.

„Þetta er áfangasigur í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi. Þessum glæpagengjum er alveg sama um mannslíf,“ sagði Karner en tveir einstaklingar fundust látnir í bíl á vegum glæpahringsins við eftirlit á landamærum Ungverjalands í fyrra. Í þeirri ferð voru 29 einstaklingar um borð í bílnum.