1.146 einstaklingar hafa verið sviptir á undanförnum áratug. Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, þingmanns Pírata.

Flestir hafa verið fjárræðissviptir, eða 559 einstaklingar, síðan árið 2012. Þar af voru 11 einstaklingar sem voru sviptir fjárræði yfir tiltekinni eign. Meðaltímalengd fjárræðissviptinganna var tæplega þrjú og hálft ár.

Þar á eftir kemur sjálfræðissvipting, sem alls 394 einstaklingar hafa undirgengist. Þær sviptingar eru hins vegar mun styttri, eða rúmt eitt ár að meðaltali.

Þá hafa 193 einstaklingar verið lögræðissviptir á liðnum áratug, það er bæði sjálfræðis- og fjárræðissviptir. Tímalengdin er lengst í þessum tilfellum, eða rúm fjögur ár að meðaltali.