Kjósendur sem voru í einangrun eða sóttkví á meðan á alþingiskosningum stóð gátu farið akandi á sérútbúna kjörstaði og kosið úr bílnum. 307 nýttu sér þessa leið í kosningunum í september og 41 kusu á dvalarstað.
223 af þeim sem kusu úr bíl gerðu það hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Alls voru fimmtán sérstakir Covid-kjörstaðir settir upp fyrir alþingiskosningarnar.
„Yfirvöld voru reiðubúin til að ganga mjög langt til þess að tryggja hverjum og einum kjósenda að nýta sinn kosningarétt. Þess vegna voru þessir sérstöku kjörstaðir settir upp,“ segir Fjalar Sigurðarson upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins.
„Við vissum skiljanlega ekki hver staðan í smitum yrði þegar kosningadagurinn rynni upp en vildum vera með vaðið fyrir neðan okkur í þessu mikilvæga máli,“ segir hann.
Í heildina voru 1213 manns sem fengu aðstoð við að kjósa í kosningunum, sem er talsvert fleiri en árið 2017 þegar 468 fengu aðstoð. Flestir fengu aðstoð utan kjörfundar, eða 984, á meðan 229 fengu aðstoð á kjörfundi. Þetta kemur fram hjá Hagstofu Íslands.
Lægri kosningaþátttaka
Kosningaþátttaka ungs fólks var minni í síðustu alþingiskosningum miðað við kosningarnar árið 2017. Þátttaka fólks á aldrinum 18-19 ára dróst saman um 4,7 prósent og hjá fólki 30-34 ára var samdrátturinn 2,5 prósent.
Minnst þátttaka var hjá fólki 20-24 ára en þar var kosningaþátttaka aðeins 67,6 prósent. Alls var kosningaþátttaka 80,1 prósent, aðeins lægra en árið 2017 þar sem þátttaka var 81,2 prósent.
Af frambjóðendum í öllum kjördæmum voru 52,8 prósent frambjóðenda karlar en 47,2 prósent konur. Hlutfall kvenna var hæst í Reykjavík suður, 48,6 prósent, en lægst í Suðurkjördæmi, 45 prósent.
Meðalaldur frambjóðenda á öllu landinu var 49,8 ár. Meðalaldur karlkyns frambjóðenda var 51,6 ár en kvenkyns frambjóðenda 47,7 ár.