Kjós­endur sem voru í ein­angrun eða sótt­kví á meðan á al­þingis­kosningum stóð gátu farið akandi á sér­út­búna kjör­staði og kosið úr bílnum. 307 nýttu sér þessa leið í kosningunum í septem­ber og 41 kusu á dvalar­stað.

223 af þeim sem kusu úr bíl gerðu það hjá sýslu­manninum á höfuð­borgar­svæðinu. Alls voru fimm­tán sér­stakir Co­vid-kjör­staðir settir upp fyrir al­þingis­kosningarnar.

„Yfir­völd voru reiðu­búin til að ganga mjög langt til þess að tryggja hverjum og einum kjós­enda að nýta sinn kosninga­rétt. Þess vegna voru þessir sér­stöku kjör­staðir settir upp,“ segir Fjalar Sigurðar­son upp­lýsinga­full­trúi dóms­mála­ráðu­neytisins.

„Við vissum skiljan­lega ekki hver staðan í smitum yrði þegar kosninga­dagurinn rynni upp en vildum vera með vaðið fyrir neðan okkur í þessu mikil­væga máli,“ segir hann.

Í heildina voru 1213 manns sem fengu að­stoð við að kjósa í kosningunum, sem er tals­vert fleiri en árið 2017 þegar 468 fengu að­stoð. Flestir fengu að­stoð utan kjör­fundar, eða 984, á meðan 229 fengu að­stoð á kjör­fundi. Þetta kemur fram hjá Hag­stofu Ís­lands.

Lægri kosningaþátttaka

Kosninga­þátt­taka ungs fólks var minni í síðustu al­þingis­kosningum miðað við kosningarnar árið 2017. Þátt­taka fólks á aldrinum 18-19 ára dróst saman um 4,7 prósent og hjá fólki 30-34 ára var sam­drátturinn 2,5 prósent.

Minnst þátt­taka var hjá fólki 20-24 ára en þar var kosninga­þátt­taka að­eins 67,6 prósent. Alls var kosninga­þátt­taka 80,1 prósent, að­eins lægra en árið 2017 þar sem þátt­taka var 81,2 prósent.

Af fram­bjóð­endum í öllum kjör­dæmum voru 52,8 prósent fram­bjóð­enda karlar en 47,2 prósent konur. Hlut­fall kvenna var hæst í Reykja­vík suður, 48,6 prósent, en lægst í Suður­kjör­dæmi, 45 prósent.

Meðal­aldur fram­bjóð­enda á öllu landinu var 49,8 ár. Meðal­aldur karl­kyns fram­bjóð­enda var 51,6 ár en kven­kyns fram­bjóð­enda 47,7 ár.