Að minnsta kosti 31 milljarði verður varið í smíði 582 hjúkunarrýma í mörgum stærstu bæjarfélögum landsins á næstu fimm árum. Er þá búnaður heimilanna ótalinn.

Kostnaður á hvert rými, sem ýmist er fyrir einstaklinga eða hjón, er að meðaltali 55 milljónir króna að því er heimildir Fréttablaðsins herma. Það er Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir sem hafa umsjón með verkinu.

Fyrsta heimilið sem opnað verður í þessari framkvæmdaáætlun er í Árborg, en þangað munu 60 íbúar flytja í haust. Önnur heimili eru á undirbúningsstigi en verða tekin í gagnið á árabilinu 2022 til 2027, en þau munu meðal annars rísa í Reykjavík, Reykjanesbæ, Hveragerði, Húsavík og Ísafirði.

Bygging nýja hjúkrunarheimilisins í Árborg hefur staðið yfir frá 2019. Útlit þess hefur vakið athygli, en húsið er hringlaga með innigarði. Öll herbergin eru einstaklingsherbergi sem bjóða upp á þann möguleika að hjón geti dvalið saman í herbergi.