Álagðar dómsektir sem námu tíu milljón krónum eða meira á tímabilinu 2014 til 2018 höfðu í árslok 2021 einungis verið greiddar í 2,2 prósent tilfella. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunnar, en þar er bent á að innheimtuhlutfallið sé mun lægra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum
Þessar sektir námu alls 5,699 milljörðum króna, og er hægt að gera ráð fyrir því að rétt rúmlega hundrað milljónir hafi verið greiddar.
Í skýrslunni segir að í 41 prósent tilvika var vararefsingu beitt og skiptist það þannig að vararefsing var í formi samfélagsþjónustu í 38,7 prósent tilvika en 2,3 prósent í formi fangelsisvistar. Þá eru fyrningar og afskriftir dómsekta einnig verulegar en yfir tímabilið 2014 til 2021 hafa samtals 1,341 milljarður króna verið afskrifaðar.
Vilja að ráðuneytið bregðist við í bráð
Ríkisendurskoðun telur brýnt að dómsmálaráðuneytið bregðist við þessu og hvetur ráðuneytið til að flýta, eins og kostur er, efnislegri meðferð á skýrslu framangreinds starfshóps og taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar koma fram því til mikils er að vinna að bæta innheimtuhlutfall dómssekta.
„Embættið hvetur ráðuneytið til að flýta, eins og kostur er, efnislegri meðferð á skýrslu starfshópsins og taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar koma fram. Til mikils er að vinna að bæta innheimtuhlutfall dómssekta eins og ítrekað hefur komið fram í skýrslum Ríkisendurskoðunar.“ segir í skýrslunni.
Þess má geta að lítil sem engin breyting hefur orðið á árangri innheimtu frá því Ríkisendurskoðun skoðaði sama málaflokk árið 2009. Síðan hefur dómsmálaráðherra, samkvæmt fyrirmælum í lögum, skipað starfshóp sem ætlað var að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar í þeim tilgangi að bæta innheimtuhlutfall.
Starfshópurinn skilaði skýrslu í árslok 2018 og lagði fram níu tillögur til úrbóta. Ríkisendurskoðun segir dómsmálaráðuneytið ekki hafa brugðist við með formlegum hætti og að afstaða ráðuneytisins liggi ekki fyrir .
Benda á mögulegar lausnir
Á meðal þeirra lausna sem bent er á í skýrslunni er samtenging upplýsingakerfa. Að mati Ríkisendurksoðunnar myndi það gefa betri yfirsýn um stöðu á fullnustu dómsekta og auka skilvirkni og árangur í málaflokknum.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins, sem heldur utan um upplýsingar um innheimtu dómsekta, er stefnt að því að taka nýtt stafrænt vöruhús í notkun árið 2023. Því er ætlað að bæta aðgengi aðila í réttarvörslukerfinu að umræddum upplýsingum
Svör bárust seint og illa
Í skýrslunni er farið hörðum orðum um svör frá dómsmálaráðuneytinu og er fullyrt að þau hafi borið með sér að að engin efnisleg meðferð á fyrri skýrslu hefði farið fram.
„Við vinnslu þessarar úttektar bárust Ríkisendurskoðun seint og illa svör og aðrar upplýsingar sem stofnunin óskaði eftir frá dómsmálaráðuneyti. Allt fram að umsagnarferli úttektarinnar báru svör ráðuneytisins með sér að engin efnisleg meðferð á skýrslu starfshóps um bætt innheimtuhlutfall hefði átt sér stað, rúmum þremur árum eftir að henni var skilað.“ segir í skýrslunni.
„Þetta taldi Ríkisendurskoðun gagnrýnivert í ljósi þess að skipun starfshópsins, skýrslugerð hans og frumvarpsgerð var á forsendum ákvæðis í lögum um nr. 15/2016 fullnustu refsinga.“
Óásættanleg staða
Þá er talsvert fjallað um stöðu fangelsisrýma í skýrslunni, en vöntun á þeim hefur talsverð áhrif á málin. Ríkisendurskoðun segir skortinn óásættanlegan.
„Fulltrúar Fangelsismálastofnunar upplýstu Ríkisendurskoðun um að ef ekki hefði verið heimilt að afplána vararefsingar með samfélagsþjónustu síðastliðin ár hefðu nánast allar vararefsingar fyrnst vegna skorts á fangelsisrýmum. Staða þessara mála er að mati Ríkisendurskoðunar óásættanleg enda grefur hún undan þeim varnaðaráhrifum sem sektum er ætlað að hafa. Mikilvægt er að brugðist verði við þessu svo að Fangelsismálastofnun geti sinnt lagalegu hlutverki sínu.“ segir í skýrslunni.
Fréttin hefur verið uppfærð.