Ferðafélag Íslands bauð í fræðslugöngu á gosstöðvarnar í Geldingadölum í gær. Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands, segir 113 hafa tekið þátt í göngunni. Í gær var eitt ár liðið frá upphafi gossins.
„Þetta var glæsilegur hópur göngufólks og allir virtust í góðu skapi,“ segir Tómas í færslu á Facebook. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Ólafur Örn Haraldsson, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, voru meðal þátttakenda.

Veður var ekki með besta móti í upphafi ferðar, samkvæmt Tómasi, en fólk lét þó ekki á sig fá. „Gengið var í rólegheitum að rjúkandi hrauninu - og inn á það á öruggum stað þar sem tekin voru sýni og hitastig hraunsins mælt,“ segir Tómas.
Á leiðinni voru tíu fræðslustopp þar sem jarðfræðingarnir Helga Kristín Torfadóttir og Magnús Tumi Guðmundsson fóru yfir jarðfræði svæðisins og gerðu samanburð við önnur nýleg eldgos á Íslandi.

„Það var sérstakt að standa á hrauninu sem rauk úr þannig að skyggni var takmarkað,“ segir Tómas. „Tek fram að gasmælar voru með í för og vindur til staðar.“
Allir þátttakendur fengu endurgert göngukort af svæðinu í lok göngunnar. Einnig fengu ábúendur á Hrauni kort afhent en Geldingadalir eru á þeirra landi og þeir aðstoðuðu við að fara yfir örnefni á svæðinu og slóða.


