Ferða­fé­lag Ís­lands bauð í fræðslu­göngu á gos­stöðvarnar í Geldinga­dölum í gær. Tómas Guð­bjarts­son, hjarta­skurð­læknir og farar­stjóri hjá Ferða­fé­lagi Ís­lands, segir 113 hafa tekið þátt í göngunni. Í gær var eitt ár liðið frá upp­hafi gossins.

„Þetta var glæsi­legur hópur göngu­fólks og allir virtust í góðu skapi,“ segir Tómas í færslu á Face­book. Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, og Ólafur Örn Haralds­son, fyrr­verandi for­seti Ferða­fé­lags Ís­lands, voru meðal þátt­tak­enda.

Hér má sjá myndarlegan hópinn ganga eftir slóða með rjúkandi hraun sér við hlið.
Mynd/Ferðafélag Íslands

Veður var ekki með besta móti í upp­hafi ferðar, sam­kvæmt Tómasi, en fólk lét þó ekki á sig fá. „Gengið var í ró­leg­heitum að rjúkandi hrauninu - og inn á það á öruggum stað þar sem tekin voru sýni og hita­stig hraunsins mælt,“ segir Tómas.

Á leiðinni voru tíu fræðslu­stopp þar sem jarð­fræðingarnir Helga Kristín Torfa­dóttir og Magnús Tumi Guð­munds­son fóru yfir jarð­fræði svæðisins og gerðu saman­burð við önnur ný­leg eld­gos á Ís­landi.

Guðni Th. Jóhannesson, Jóhann Ágúst Sigurðsson og Tómas Guðbjartsson eru hér myndaðir þar sem þeir standa sjálfir á rjúkandi hrauni.
Mynd/Ferðafélag Íslands

„Það var sér­stakt að standa á hrauninu sem rauk úr þannig að skyggni var tak­markað,“ segir Tómas. „Tek fram að gas­mælar voru með í för og vindur til staðar.“

Allir þátt­tak­endur fengu endur­gert göngu­kort af svæðinu í lok göngunnar. Einnig fengu á­bú­endur á Hrauni kort af­hent en Geldinga­dalir eru á þeirra landi og þeir að­stoðuðu við að fara yfir ör­nefni á svæðinu og slóða.

Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku í lok ferðarinnar.
Mynd/Ferðafélag Íslands
Þátttakendur fengu fræðslu um jarðfræði svæðisins og gátu spurt spurninga.
Mynd/Svanur Kristjánsson
Jarð­fræðingarnir Helga Kristín Torfa­dóttir og Magnús Tumi Guð­munds­son fóru yfir jarð­fræði svæðisins í fræðslustoppum.
Samsett mynd/Ferðafélag Íslands