Í október 2020 voru 107 börn á biðlista eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans (BUGL). Meðalbiðtíminn var þá um 6,6 mánuðir. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra við fyrirspurn þingmannsins Ólafs Ísleifssonar.

Í svarinu kemur einnig fram að 845 börn fengu þjónustu hjá göngudeild BUGL í fyrra og alls voru komur á deildina 8.193. Á göngudeild BUGL starfar bráðateymi sem sinnir bráðaþjónustu. Teymið metur hvort mál krefjist tafarlausrar íhlutunar og hvort þörf sé á bráðainnlögn á legudeild. Pláss er fyrir 17 börn að hámarki á legudeildinni. Meðallegutími barna á legudeild BUGL í janúar til júní 2020 var 19 dagar.