Tæplega 4.400 manns eru á biðlista eftir skurðaðgerð hjá Landspítalanum og er biðtími um sex mánuðir. Af þeim bíða 832 sjúklingar eftir liðskiptaaðgerð og er biðtíminn á bilinu sex til sjö mánuðir.

„Í rauninni hafa biðlistarnir lengst í sumar. Það hefur fjölgað á biðlistunum en það var alveg viðbúið,“ segir Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður skurðstofu- og gjörgæslukjarna Landspítalans. Hún segir flesta hins vegar komast í aðgerð innan fimm mánaða.

Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skurðlækningaþjónustu á spítalanum, segir augasteina- og liðskiptaaðgerðir stærstu biðflokkana.

„Biðtíminn eftir augasteinaaðgerðum náðist nú mjög vel niður á síðustu árum. Hann er enn þá innan ásættanlegra marka þó hann sé aðeins að færast upp á við.“

Landspítalinn hefur verið í átaki til að minnka biðtíma eftir göngudeildarþjónustu en Margrét segir þann biðtíma vera dulda bið hjá spítalanum.

„Biðtíminn eftir því að komast í mat og endanlega ákvörðun um hvort þú þarft að fara í aðgerð hefur ekki alltaf verið skráður. Við höfum verið að vinna það niður og núna erum við komin í fjóra mánuði í bið en það voru átta mánuðir. Við það fjölgar á sjálfum biðlistanum en við erum að færa þetta í sýnilegra, eðlilegra og betra vinnufyrirkomulag,“ segir Margrét.

Landspítalinn hefur verið með átaksverkefni í sumar til að grynnka á biðlistum og segir Vigdís það hafa gengið ágætlega.

„Við höfum verið með átakshelgi í liðskiptaaðgerðum þar sem var gert töluvert af aðgerðum. Það er 12 prósenta samdráttur í öllum aðgerðum hjá okkur núna fyrstu sjö mánuði ársins. Í lok samkomubannsins var sá samdráttur 18 prósent.“

Margrét bendir hins vegar á að hlutirnir hafi eðlilega legið niðri að hluta til yfir sumartímann.

„Fólkið okkar þarf að komast í sumarfrí og svo hafa innköllunarstjórarnir okkar verið að hringja í sjúklinga og bjóða þeim aðgerðir og fólk kemst ekki. Fólk er í sumarfríi og það hefur áhrif,“ segir Vigdís.

„Það á helst við um liðskiptaaðgerðirnar þó það séu margir að bíða þá er fólk svo ekki alveg tilbúið að stökkva inn þegar það gefst færi,“ segir Margrét.

Til að mæta þessu hefur spítalinn leyft fólki að bóka sig sjálft í aðgerðir með ákveðnum dagsetningum.

Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins, segir áhersluna hafa verið á gera aðgerðir á þeim sem eru í hvað mestri þörf.

„Við höfum verið að vinna lengri daga til að vinna á biðlistunum, þótt listarnir séu enn lengri en þeir ættu að vera,“ segir Dagný.

Ekki var hætt við sumarlokun. „Við reiknuðum út að það kæmi niður á það sama. Á móti kemur að það eru engir aðrir frídagar og unnið langa daga.“

Klíníkin Ármúla hóf að gera aðgerðir að nýju um leið og það var leyfilegt, þann 4. maí.

„Venjulega höfum við lokað skurðstofunum í fimm vikur á sumrin en nú lokuðum við bara í eina viku,“ segir Hjálmar Þorsteinsson, bæklunarskurðlæknir á Klíníkinni.