Um 4.040 umsóknir um framhaldsnám fyrir komandi skólaár hafa borist Háskóla Íslands. Þetta er 28 prósent aukning á umsóknum í framhaldsnám milli ára en í fyrra voru þær 3.178. Þetta er svipuð aukning og hjá HR en þar er 33 prósent fjölgun umsókna í meistaranám á milli ára.

Enn er opið fyrir umsóknir í hluta framhaldsnáms við Háskóla Íslands en umsóknarfrestur um það nám rennur út 15. júní líkt og umsóknarfrestur um grunnnám við skólann.

76 prósent fjölgun í kennaranámi

Langstærstur hluti umsóknanna er innlendur að sögn kynningar- og vefritstjóra HÍ og er fjölgun í nær öllum 26 deildum skólans. „Það er gaman að geta þess að 76 prósent fjölgun er í kennaranámi á framhaldstigi á Menntavísindasviði,“ segir Björn Gíslason, kynningar- og vefritstjóri HÍ, í samtali við Fréttablaðið.

Gert er ráð fyrir fjölgun umsókna í grunnnámi í skólanum en umsóknarfrestur um það rennur út 15. júní sem fyrr segir.

Brautskráning fer fram í tveimur athöfnum

Vorbrautskráning fer fram í tveimur athöfnum í Laugardalshöll laugardaginn 27. júní næstkomandi. Tilkynning um þetta barst nemendum í dag.

„Þetta er mikið gleðiefni en rýmkun stjórnvalda á möguleikum fólks til að koma saman gerir þetta kleift,“ segir í tilkynningunni frá Jóni Atla Benediktssyni, rektor háskólans. Þar kemur fram að mikill áhugi er fyrir sumarnámi í Háskóla Íslands. Ennfremur hvetur rektor nemendur til að kynna sér sumarstörf fyrir nemendur.

„Ég hvet ykkur öll til að fara áfram varlega og fylgja fyrirmælum varðandi sóttvarnir.“