Minnst 600 eru látnir vegna átaka Armena og Asera í Nagornó-Karabak. Þetta kemur fram í tölum héraðsstjórnarinnar og Asera, en Aserar gefa ekki upp hversu margir hermenn hafa fallið. Átökin eru orðin þau mannskæðustu frá því í stríðinu á tíunda áratugnum er 30 þúsund manns létust.

Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, sagði á miðvikudag vopnahlé ekki vera í augsýn. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í vikunni að Bandaríkin væru hlutlaus, en að vonandi gætu Armenar varist þar til komið væri á vopnahlé. Hann gagnrýndi Tyrki fyrir að styðja Asera.