Rúmlega 4500 einstaklingar hafa látist hér á landi vegna afstýranlegra orsaka, eða atvika sem hefði mátt koma í veg fyrir, frá 2009 til 2018. Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, um ótímabær dauðsföll.

Ótímabærum dauðsföllum er skipt í tvennt og eru þessar skilgreiningar hafðar til hliðsjónar í svari heilbrigðisráðherra, annars vegar afstýranlegar dánarorsakir (e. preventable mortality) og hins vegar læknanlegar dánarorsakir (e. treatable mortality). Embætti landlæknis ber lögum samkvæmt að halda utan um tölur um dánartíðni og dánarmein.

Einungis einn einstaklingur hefur dáið vegna læknismistaka hér á landi síðastliðin 10 ár.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 2009 til 2018 deyja um 300 manns á ári hverju af afstýranlegum dánarorsökum, eða 3122 einstaklingar á 10 árum.

Afstýranlegar dánarorsakir eru skilgreindar sem dánarorsakir vegna heilbrigðisvanda hjá fólki sem er yngra en 75 ára sem mögulega hefði mátt koma í veg fyrir, til dæmis með öflugu lýðheilsustarfi og heilsugæsluþjónustu.

Árið 2016 létust 344 einstaklingar af afstýranlegum dánarorsökum.

Tæplega 1500 manns hafa látist af læknanlegum dánarorsökum frá árinu 2009 til ársins 2018 að því er fram kemur í svari frá heilbrigðisráðuneytinu.
Læknanlegar dánarorsakir eru skilgreindar sem dánarorsakir vegna sjúkdóma hjá fólki sem er yngra en 75 ára sem mögulega hefði mátt meðhöndla með öflugri og skilvirkri heilbrigðisþjónustu.

Fyrir tveimur árum létust 171 af læknanlegum orsökum.

Síðastliðin 10 ár hefur einungis einn einstaklingur látist vegna læknismistaka. Læknamistök falla undir ICD-10 kóðana Y60-Y69 – Óhappatilvik meðan á lyflæknisfræðilegri og handlæknisfræðilegri meðferð stendur.

Hægt er að sjá svarið í heild sinni á pdf skjali vef Alþingis. Skilgreiningin í svari heilbrigðisráðherra er unnin eftir umræddum flokkun dánarmeina hjá Efnahags- og framfarastofnunin (e. OECD), framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (e. European Commission) og Hagstofa Evrópusambandsins (e. EUROSTAT).

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson