Rúmlega 400 björgunarsveitarmenn tóku þátt í um 145 verkefnum í nótt og í morgun vegna óveðursins sem gekk yfir.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi hjá Landsbjörg, segir verkefni björgunarsveita hafa verið vel viðráðanleg, mikill viðbúnaður og undirbúningur viðbraðgsaðila og mikilvægra innviða hafi átt stóran þátt í því.

Að sögn Davíðs Más voru flest útköllin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og á Suðurlandi og snéru að hefðbundnum verkefnum í óveðrum líkt og þessu.

„Það var fok á allskonar munum, garðhúsum, klæðningum, grindverkum og þess háttar,“ segir Davíð Már og bætir við að eitthvað hafi verið um að svalahurðir og gluggar hafi fokið upp.

Davíð Már segist ekki hafa heyrt af neinum stórvægilegum eignatjónum, flest eignatjón hafi verið smávægileg.

Undirbúningur skilaði sér

Að sögn Davíðs Más fór veðrið að ganga að mestu niður á Suðvesturhorninu upp úr sjö í morgun og að þá hafi farið að hægja á verkefnum björgunarsveita.

Veðrið hafi þá færst norður yfir landið á Vestfirði, Norðurland og á Austfirði, það hafi þó allt gengið vel þar og segir Davíð Már útköllin hafa verið fá þar.

„Fljótlega undir hádegi í kringum ellefu voru flestar aðgerðarstjórnir farnar að pakka saman í sínum óveðursverkefnum,“ segir Davíð Már og bætir við að það hafi örfá stök útköll borist síðan tengd foki á hlutum.

Davíð Már þakkar fyrir viðbúnaðinn og undirbúninginn sem átti sér stað áður en veðrið hófst. „Það var búið að undirbúa viðbragðsaðila og mikilvæga innviði og þar af leiðandi gengu þessi verkefni mjög vel.

Björgunarsveitir voru mjög fljótar að bregðast við og sinna útköllunum sem bárust og almenningur var lítið sem ekkert á ferðinni.“

Að sögn Davíðs Más hefðu aðgerðir geta orðið mun flóknari ef fólk hefði verið mikið á ferðinni í nótt og morgun, „þá værum við líklega enn að greiða úr einhverjum flækjum.“

Léleg færð á fjallavegum

Davíð Már segist hafa heyrt af lélegri færð á fjallvegum og ætti fólk að kynna sér veður og færð vandlega áður en það leggur af stað í ferðalag.

Viðbraðgsaðilar í Skógarhlíð voru að pakka saman um klukkan eitt þegar Fréttablaðið sló á þráðinn eftir annasama nótt og morgun. Björgunarsveitir fá nú smá hvíld áður en það fer að hvessa aftur í kvöld.

Davíð Már segir veðrið í kvöld þó ekki kalla til frekari viðbragðsstöðu björgunarsveita en þeirri hefðbundnu.

„Það verður ekki þannig veður, meira hefðbundið leiðinda vetrarveður eins og við þekkjum það hér á Íslandi. Það er svolítil úrkoma, gæti snjóað mikið svo það er von á ófærð einhvers staðar og hætta á truflun á samgöngum,“ segir Davíð Már.