Í gær var þýska eftir­lits­fyrir­tækið TÜV R­hein­land dæmt bóta­skylt gagn­vart rúm­lega 200 ís­lenskum konum sem höfðuðu í Frakk­landi skaða­bóta­mál vegna gallaðra brjósta­púða, eða svo­kallaðra PIP-púða, sem settir voru í konurnar á Ís­landi. Fyrst var greint frá á RÚV. Þar er haft eftir lög­manni kvennanna, Sögu Ýrr Jóns­dóttur, að um mikil­vægan á­fanga­sigur sé að ræða.

Í frétt þýska miðilsins DW segir að alls 13.500 konum hafi verið dæmdar bætur. Hverri konu voru dæmdar um 3.000 evrur í bætur eða um 469 þúsund ís­lenskar krónur.

Málið á sér umtíu ára sögu. Það komst í há­mæli árið 2011 þegar upp komst að iðnaðar­plast hafði verið notað í púðana. Málið flæktist um dóms­kerfi Frakk­lands í um ára­bil og er enn mikið eftir. Þegar fjallað var um málið á vef Frétta­blaðsins árið 2018 sagði Saga Ýrr að um eitt um­fangs­mesta dóms­mál í sögu Frakk­lands væri að ræða.

Heil­brigðis­yfir­völd í Frakk­landi gáfu árið 2011 út við­vörun vegna brjósta­púðanna frá PIP þar sem þeir þóttu springa ó­venju­lega oft. Við nánari at­hugun kom í ljós að gæði silíkonsins í púðunum voru ó­full­nægjandi og að þeir láku. Frönsk yfir­völd mæltu þá með því að konur létu fjar­lægja púðana.

Púðarnir voru gallaðir.
Fréttablaðið/Getty

400 þúsund konur með PIP-púða

Alls voru um 1.700 konur sem höfðuðu mál fyrir fyrir frönskum dóm­stólum gegn þýska eftir­lits­fyrir­tækinu TÜV R­hein­land og franska fyrir­tækinu Poly Im­plant Prost­hé­se(PIP). Meðal þeirra voru 204 ís­lenskar konur sem fengu púðana á Ís­landi. Talið er að allt að 400 þúsund konur frá 65 löndum um allan heim hafi fengið gallaða síl­íkon­púða í brjóstin.

Fram­leiðandi brjósta­púðana, PIP, var sak­felldur fyrir svik og hlaut fyrir það fangelsis­dóm, en fyrir­tækið var gjald­þrota og gat því ekki greitt skaða­bætur til kvennana sem urðu margar fyrir heilsu­tjóni vegna púðanna. PIP vísaði því skaða­bóta­kröfunum til þýska eftir­lits­fyrir­tækisins og bar fyrir að það hefði aldrei átt að votta fyrir púðana, sem inni­héldu iðnaðar­plast.