Rúmenskur karl­maður hefur setið fastur í komu- og brott­farar­sal Kefla­víkur­flug­vallar um helgina. Heimildir Frétta­blaðsins herma að maðurinn hafi átt flug heim með milli­lendingu í London en hann hafi ekki fengið að fljúga til Bret­lands af ókunnum á­stæðum. Eftir því sem Frétta­blaðið kemst næst hefur maðurinn ekki efni á nýju flugi og hefur hann því verið fastur í Leifs­stöð.

Guð­jón Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Isavia, gat stað­fest við Frétta­blaðið að er­lendur maður hafði dvalið í flug­stöðinni í dag og ein­hvern hluta helgarinnar. „Ég get stað­fest það, já. Isavia hefur verið í sam­bandi við við­eig­andi yfir­völd, það er að segja fé­lags­mála­yfir­völd og lög­reglu, út af máli mannsins og við vonum að það mál fái far­sæla lausn sem fyrst,“ segir hann. Hann gat þá ekkert sagt til um hvað hefði komið upp hjá manninum og vísaði á fé­lags­mála­yfir­völd og lög­reglu.

Vakt­hafandi varð­stjóri lög­reglunnar á Suður­nesjum vildi ekki tjá sig um málið við Frétta­blaðið og þá hefur ekki náðst í Sigur­geir Ómar Sig­munds­son, yfir­lög­reglu­þjón flug­stöðva­deildar lög­reglunnar á Suður­nesjum.

Heimildir Frétta­blaðsins herma að maðurinn hafi komið til landsins í septem­ber­mánuði til að vinna en ekkert hafi orðið af því. Hann hafi svo, sem fyrr segir, ætlað að fljúga heim og átti flug­miða þangað með milli­lendingu í London. Honum var svo meinað að fljúga til Bret­lands af ó­kunnum á­stæðum.

Starfs­menn Isavia, sem Frétta­blaðið ræddi við, vildu ekki koma fram undir nafni en lýstu því hvernig einn starfs­maður vallarins hafi fært manninum mat í dag en við það hafi hann brostið í grát.