Mennirnir tveir sem lögreglan lýsti eftir í gær í tengslum við tvo COVID-smitaða einstaklinga sem komu hingað til lands á dögunum reyndust ekki vera smitaðir af COVID-19. Mennirnir tveir fundust á hóteli á höfuðborgarsvæðinu í morgun.

Þetta staðfesti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við vef Morgunblaðsins. Mennirnir verða fluttir í farsóttahúsið við Rauðarárstíg í dag ásamt þremur einstaklingum sem hafa verið í haldi lögreglu síðan í fyrradag.

Sex einstaklingar, allt rúmenskir ríkisborgarar, komu hingað til lands frá London í liðinni viku og áttu þeir að fara beint í sóttkví eins og reglur kveða á um. Það gerðu þeir ekki og reyndust tveir úr hópnum vera smitaðir af COVID-19.

Lögregla leitar enn sjötta mannsins, Pioaru Alexandru Inonut.

„Þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Ionut, eða vita hvar hann er niðurkominn, eru vinsamlegast beðnir um að hafa tafarlaust samband við lögreglu í síma 112. Starfsmenn gististaða og hótela eru sérstaklega beðnir um að vera á varðbergi og tilkynna um Ionut hafi þeir orðið varir við ferðir hans,“ segir í fréttatilkynningu lögreglunnar í morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Rúmenarnir tveir sem eru smitaðir af COVID-19 haldi því fram að þeir kannist ekki við hina þrjá Rúmenana sem lögreglan lýsti eftir um helgina.