Það voru ekki aðeins Íslendingar sem gerðu sér ferð til að styðja við bakið á Stelpunum okkar gegn Belgum um síðustu helgi.

Fréttablaðið hitti á fjögurra manna skoska fjölskyldu sem var komin til Manchester til að styðja við bakið á Íslandi og var fjölskyldufaðirinn, Billy Rumbold, þar fremstur í flokki í sérstakri landsliðstreyju með Rumboldsson á bakinu.

Aðrir meðlimir fjölskyldunnar héldu í skosku ræturnar og voru klæddir skosku landsliðstreyjunni.

„Við heilluðumst af íslenska liðinu á Heimsmeistaramótinu 2018. Skotland komst ekki í gegnum undankeppnina fyrir HM í Rússlandi og við þurftum að finna okkur nýtt lið. Þá heillaði íslenska liðið okkur fjölskylduna. Og auðvitað víkingaklappið,“ segir Billy glaðbeittur er rætt er við hann um hvernig það komi til að skosk fjölskylda sé í Manchester að styðja Ísland.

„Við höfum aldrei farið til Íslands, en konan mín er í langhlaupi og hefur lengi haft auga á því að hlaupa Laugaveginn.“

Þetta er að sögn Billy eini leikurinn með Íslandi sem þau munu sjá á mótinu en leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem íslenska liðið var sterkari aðilinn á akademíuvelli Manchester City.

„Svo eru þetta tvær víkingaþjóðir, við deilum því líka,“ segir Billy enn fremur glettinn, spurður út í tengslin við íslenska liðið, en hann var þar með konu sinni, Dolinu, og sonum þeirra, hinum ellefu ára gamla Scott og sjö ára gamla Luke.

Skotarnir kunnu vel við sig á íslenska stuðningsmannasvæðinu í miðbæ Manchester og fengu að taka víkingaklappið þótt þeir hafi verið staðsettir með belgísku stuðningsmönnunum á vellinum sjálfum.

„Heilt yfir var þetta frábær dagur. Íslendingar voru í verulegum meirihluta á stuðningsmannasvæðinu og skemmtiatriðin voru frábær,“ segir Billy.

Scott og Luke heilluðust líkt og margir aðrir af Sveindísi Jane Jónsdóttur, sem var valin maður leiksins, en hjónin hrósa Eyjameyjunni Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur fyrir að bregðast við mótlætinu eftir að hafa brennt af vítaspyrnu með marki í seinni hálfleik.

„Strákarnir voru hrifnir af Sveindísi enda mjög hröð og með góða tækni. Okkur fannst Þorvaldsdóttir svara vel fyrir sig með markinu eftir að hafa brennt af vítaspyrnunni. Það var frábær karakter hjá henni,“ bendir Billy Rumbold réttilega á.