Gylfi Björn Helgason, formaður stjórnar Félags fornleifafræðinga, segir það að staða þjóðminjavarðar hafi ekki verið auglýst síðan árið 2000 endurspegla viðhorf ríkisstjórnarinnar til menningar.

Margrét Hallgrímsdóttir tók við embætti þjóðminjavarðar árið 2000 en þá hafði starfið verið auglýst og alls bárust níu umsóknir.

Aldrei auglýst

Margrét var upphaflega skipuð í embættið til fimm ára en gegndi því allt þar til í ár þegar hún var skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu innri þjónustu í forsætisráðuneytinu. Að frátöldu tímabilinu 2014 til 2015 þegar hún var settur skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu. Þá gegndu Anna Guðný Ásgeirsdóttir og Anna Lísa Rúnarsdóttir embætti þjóðminjavarðar.

Embætti þjóðminjavarðar var aldrei auglýst á meðan Margrét gegndi stöðunni og því var síðast auglýst í starfið fyrir rúmum 20 árum.

Stjórn Félags fornleifafræðinga sendi frá sér yfirlýsingu á laugardag þar sem þau sögðu skipun Lilju Daggar metnaðarlausa. Gylfi segir stjórnina krefjast skýringar frá Lilju Dögg á því hvers vegna þessi leið hafi verið valin.

Virðingarleysi

Gylfi segir skipunina sýna virðingarleysi ríkisstjórnarinnar fyrir Þjóðminjasafninu og íslenskri menningu. „Metnaðurinn fyrir íslenskri menningu er bara ekki meira en þetta.“

Að sögn Gylfa er Þjóðminjasafnið höfuðsafn og miðstöð íslenskrar menningar sem leggur línurnar fyrir önnur söfn hvað varðar safnastarf og rannsóknarstarf. Hann segir starfið hafa tekið miklum breytingum á þeim rúmum tuttugu árum sem Margrét gegndi embætti.

Upphaflega hafi fornleifarannsóknir verður gerðar á safninu en í dag sé rannsóknarstarfið þar hvorki fugl né fiskur.

Gagnrýnisraddir

Fleiri hafa gagnrýnt skipun Lilju Daggar í embættið en stjórn Félags íslenskra safna og safnmanna gerir alvarlegar athugasemdir við skipunina. Félagið sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna málsins.

„Ráðningar sem þessar, með til­færslu á milli em­bætta, eru ó­gagn­sæjar og ó­fag­legar. Slík vinnu­brögð grafa undan trausti á stjórn­sýsluna og em­bættis­manna­kerfið,“ segir í yfir­lýsingunni.

„Með því að skipa í stöðu þjóð­minja­varðar án aug­lýsingar er gert lítið úr mikil­vægi safnsins, fag­legri starf­semi þess og starfs­fólki. Skipun sem þessi grefur undan fag­legu um­hverfi safna og lýsir metnaðar­leysi stjórn­sýslunnar í garð Þjóð­minja­safnsins og mála­flokksins í heild,“ segir jafnframt í yfir­lýsingunni.