Eins og stendur hafa rúm þrjú þúsund skrifað undir undirskriftasöfnun til að koma í veg fyrir lokun siglingaklúbbsins Siglunes í Nauthólsvík.

Lokunin er hluti af hagræðingartillögum borgarinnar og á með lokuninni að spara borginni um 23 milljónir. Fyrrverandi starfsmenn félagsins hófu undirskriftasöfnunina og vonast til þess að borgarstjórn snúi ákvörðuninni á morgun þegar ákvörðunin um lokunina verður tekin á reglulegum fundi þeirra.

Björn Bjarnarson er einn þeirra fyrrverandi starfsmanna sem mótmæla lokuninni en hann hóf undirskriftasöfnunina og skorar á borgarstjórn að endurskoða þessa ákvörðun. Hann

„Það er búið að samþykkja þetta í borgarráði en á eftir að samþykkja í borgarstjórn og við erum á fullu gasi að vekja fólk til meðvitundar um þetta,“ segir Björn en á hverju sumri koma um þúsund börn á námskeið til þeirra.

Þúsund börn mæta á námskeið á hverju sumri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Á hverjum degi á sumrin eru tvö námskeið auk þess sem þau eru með siglingaklúbb fyrir eldri börn. Ofan á það hafa þau einnig tekið við fötluðum börnum á sérstök námskeið.

„Biðlistarnir eru svo jafn langir og foreldrar eru yfirleitt mjög þakklát að komast inn. Námskeiðin seljast yfirleitt upp samdægurs. Við seljum öll plássin okkar á nánast klukkutíma hvert vor,“ segir Björn.

Hann segir að í hagræðingartillögunni sé gert ráð fyrir því að siglingarfélag eigi að taka við rekstrinum og að þá komi bara eitt til greina, Brokey sem er einnig staðsett í Nauthólsvík, en það er eiginlega íþróttafélag. Björn segir að það sé mjög gott starf unnið þar en dregur í efa um að þau ráði við allt sem þau geri í Siglunesi.

„Þetta er tvennt ólík, markmiðið með þessu starfi. Við erum að taka á móti börnum sem finna sig sjaldan í öðru tómstundastarfi og það eru allir krakkarnir að takast á við náttúruna. Þetta er einstaklingmiðað og það er engin keppni. Krakkarnir mæta á eigin forsendum og takast á við sjálfa sig og veður og vinda,“ segir Björn og að það sé magnað að fylgjast með krökkunum sem mörg þori varla að fara út í sjó fyrsta daginn sigla sjálf við lok vikunnar.

Hægt er að skrifa undir hér.