Árið sem senn er að líða er ansi athyglisvert í sölu bíla, svo ekki sé meira sagt. Meðal þess sem bílaframleiðendur hafa þurft að glíma við er skortur á íhlutum og lokanir á verksmiðjum, sem verða þess valdandi að skortur er á nýjum bílum.

Þrátt fyrir að við séum enn að glíma við heimsfaraldur hefur talsverð aukning orðið hérlendis í sölu bíla, en á fyrstu 11 mánuðunum var aukningin tæp 35% frá árinu áður.

Það má telja víst að hefðu umboðin haft fleiri bíla aflögu hefði talan verið umtalsvert hærri, því að sumir bílar eru mjög eftirsóttir og fá færri en vilja, sérstaklega sumir rafbílar.

Bílaleigur eiga sinn þátt í þeirri söluaukningu sem hefur orðið, en þar var komin mikil endurnýjunarþörf og ferðamenn farnir að taka við sér.

Sem dæmi var aukningin í nóvembermánuði milli ára 353,8% en í lok nóvember höfðu 4.218 bílar selst til bílaleiga á móti 1.919 á árinu áður.

Rafmagnið er komið til að vera á íslenska bílamarkaðinum en hlutfall hreinna rafbíla í sölu er komið í 26,34% í liðnum nóvembermánuði. Svokallaðir nýorkubílar eru rúm 70% allra seldra bíla, en í fyrra var hlutfallið rúm 55% en hlutfall þeirra í sölu nóvembermánaðar er 87,33%.

Þar er helst eitt merki sem stendur upp úr og nær tveimur bílum inn á söluhæstu 10 einstöku bílana, en það er Tesla með 472 Model 3 og 375 Model Y þegar desembermánuður er hálfnaður, en þeir eru líka einu rafbílarnir á listanum.

Söluhæsti bíllinn er hins vegar Toyota RAV4 sem er bæði seldur sem bensínbíll, tvinnbíll og tengiltvinnbíll, en á sama tíma voru 597 slíkir seldir.

Ekki er líklegt að annar bíll velti honum úr sessi sem mest seldi bíll ársins.