Rétt rúmu ári eftir fyrstu staðfestu dauðsföllin af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum hefur tala látinna þar í landi farið fram úr 500.000.„Þetta er virkilega skelfilegt. Þetta er sögulegt. Þetta er eitthvað sem við höfum ekki gengið í gegnum í 102 ár, frá inflúensufaraldrinum 1918,“ segir dr. Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, í viðtali við fréttastöðina CNN.Bandaríkjamenn telja nú rúmar 332 milljónir og eru því um 916 sinnum fleiri en Íslendingar.

Ef sambærileg dánartíðni hefði sést á Íslandi og í Bandaríkjunum hefðu rúmlega 540 Íslendingar látist í faraldrinum í stað 29, eins og raun ber vitni.Uppsöfnuð dánartíðni í Bandaríkjunum er rúmlega 149 miðað við 100.000 íbúa en á Íslandi er hún tæplega átta. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir Íslendinga hafa komið einna best út úr faraldrinum miðað við önnur lönd.

„Það á eftir að draga mikinn lærdóm af þessu öllu saman, það er alveg ljóst,“ segir Thor en hann tekur einnig fram að fjöldi látinna segi ekki alla söguna um alvarleika faraldursins enda sé dánartíðni í löndum á borð við Belgíu og Bretland töluvert hærri en í Bandaríkjunum.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa leitað ýmissa leiða til að setja þennan gífurlega harmleik í samhengi. The New York Times birti í gær skýringarmynd á forsíðu sinni sem samanstóð af hálfri milljón svartra punkta, einum fyrir hvert líf er glatast hefur vegna sjúkdómsins. Þá benti The Washington Post á að ef sami fjöldi tæki sér far með langferðarútum þyrfti 9.804 rútur til verksins og myndi bílalestin teygja sig yfir 152 kílómetra leið.

Það er álíka langt og frá New York til Fíladelfíu, eða frá Reykjavík til Búðardals.Þess má geta að fleiri hafa látist af völdum COVID-19 en létust í nokkru stríði Bandaríkjanna að undanskildu borgarastríðinu. Þá sér enn ekki fyrir endann á þessum hildarleik en ríkisstjórn Joes Biden hefur heitið því að allir Bandaríkjamenn muni hafa aðgang að bóluefni fyrir lok júlímánaðar.Haldin var minningarathöfn í Hvíta húsinu á mánudagskvöld þar sem Joe Biden Bandaríkjaforseti, forsetafrúin Jill Biden, varaforsetinn Kamala Harris og eiginmaður hennar Doug Emhoff kveiktu á kertum til minningar um hina látnu.