Bílaleigubílar í Möðrudal í Norður-Múlasýslu á Austurlandi urðu verst úti í fárviðrinu sem gekk yfir landið um helgina. „Það var nú bara eins og eftir stórskotaliðsárás,“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar.

Rætt var við Steingrím í Bítinu á Bylgunni í morgun. Hann segir ekki búið að meta tjónið að fullu en að það sé mikið.

Taka þátt í kostnaði

Bílaleigan muni ekki rukka ferðamenn fyrir tjónin að fullu heldur muni hún taka þátt í kostnaðinum. „Það er engin launung að það er ekkert auðvelt að sitja fyrir framan viðskiptavin sem lendir í svona fárviðri og rukka hann um háar fjárhæðir,“ segir Steingrímur. Hann segir altjón á bílum geta verið tvær til þrjár milljónir en það standi þó ekki til að rukka viðskiptavini yfir milljón.

Tugir ferðamanna sátu fastir á Austurlandi vegna óveðursins sem reið yfir um helgina. Rúmlega sjötíu manns þurfti að leita skjóls í Möðrudal en þar urðu fjölmargir bílar fyrir miklum skemmdum.

Fréttablaðið ræddi við Vilhjálm Vernharðsson, staðarhaldara í Fjalladýrð í Möðrudal, á mánudag og sagði hann flesta bílana vera bílaleigubíla.

„Þetta eru nánast allt bíla­leigu­bílar og megnið af þessum bílum eru ó­öku­hæfir, það eru engar rúður eftir í þeim eða neitt,“ sagði Vilhjálmur.

Skuldi heilan bíl

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að það væri misjafnt eftir bílaleigum hvort bílaleigan eða leigutaki bæri ábyrgð á sandfokstjóni líkt og varð í Möðrudal. Þá kom fram að sumir viðskiptavinir gætu setið uppi með að skulda heilan bíl.

Bílaleigur hafa gagnrýnt Vegagerðina fyrir að hafa ekki gripið fyrr til lokana á svæðinu um helgina. Steingrímur segist ljóst að einhverjir ferðamenn hafi verið komnir inn á svæðið áður en Vegagerðin lokaði veginum um hádegisbil. Síðan hafi einhverjir farið inn á svæðið eftir að veginum var lokað.

Steingrímur segir Bílaleigu Akureyrar ætla reyna tækla málin eins mjúkt og lipurt og hægt sé. „Það er náttúrulega ömurlegt að lenda í þessu fyrir alla aðila, þá sem lenda í þessu og okkur.“