Þann 3. júlí ganga í gildi nýjar reglur sem taka fyrir að sölustaðir gefi viðskiptavinum sínum ókeypis einnota plastílát undir mat sem er tekinn heim (e. take-away) og verði að rukka fyrir það gjald. Þá er átt við allt plast, líka það sem er kallað lífplast, eða PLA, og flokkast í lífrænt eða almennt rusl. Söluaðilar munu sjálfir ákveða gjaldið sem þau rukka fyrir umbúðirnar.
Að sögn Gróar Einarsdóttur, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, getur hvert fyrirtæki farið sína leið með það.
„Það er ekkert verð tiltekið í lögunum þannig að veitingastaðurinn getur ákveðið hvað það eigi að kosta. Það verður spennandi að sjá hvað sölustaðir ákveða að gera. Þau geta ákveðið að setja verð sem er sambærilegt annarri verðlagningu ef þau eru með innkaupakostnað sem þau leggja ofan á. Svo geta þau ákveðið að leggja hátt gjald og þannig reynt að fæla viðskiptavini frá því að nota einnota mál. Sem er jákvætt fyrir umhverfið en neytendur verða kannski ekki hrifnir. Sölustaðir geta líka sett undirverð ef þau vilja ekki að það fæli frá og svo geta staðir að lokum nýtt tækifærið til að hækka verð á vörum sem þeir eru að selja,“ segir Gró.
Mikilvægt að uppfæra verðlista og kassakerfi
Hún segir að það sé mikilvægt að fyrirtæki uppfæri bæði verðlista og kassakerfi sín svo að þau taki, til dæmis, til greina að ef boðið er upp á að koma með eigið ílát þá sé bæði tilgreint verð fyrir bara matinn eða drykkinn og svo matinn eða drykkinn í plastílátinu og hvað ílátið kostar eitt og sér.
„Mér finnst mikilvægt að veitingastaðir viti af þessu. Það þarf að undirbúa kassakerfið og vera með möguleikann þar. Svo þarf þetta auðvitað að koma fram á kassakvittunum auk þess sem það þarf mögulega í einhverjum tilfellum að breyta matseðlum og verðskrá,“ segir Gró
Hún segir það algengan misskilning að ef ílátið sé lítið þurfi ekki að rukka fyrir það og nefnir sem dæmi kokteilsósuna.
„Það þarf að taka gjald fyrir það. Ef það er plastlok og umbúðirnar pappi þá þarf samt að rukka gjald fyrir það.“
Gró segir að mestu máli skipti að neytendur endurhugsi notkun sína á einnota ílátum og þar sem það er í boði komi þeir með sín eigin. Á vef Umhverfisstofnunar segir að nýju lagaákvæðin minni neytendur á að þegar þeir kaupa einnota ílát fylgi því alltaf ákveðinn kostnaður, sem hingað til hefur verið bakaður inn í verðið á vörunni.
Spurð hvernig eftirliti verður háttað segir Gró að það liggi ekki alveg fyrir en það sé ljóst að ef fyrirtækin uppfylli ekki skilyrðin muni Umhverfisstofnun fylgjast betur með þeim.

Rukkað ef lokið er úr plasti
Nánar er fjallað um málið á vef Umhverfisstofnunar en þar eru tekin nokkur dæmi um það sem breytist:
Matsölustaðir eiga að taka gjald fyrir einnota plastglös undir gosdrykki, safa og hristinga.
Matsölustaðir eiga að taka gjald fyrir einnota matarílát og lok úr plasti og pappírsílát sem eru húðuð með plasti.
Kaffihús eiga að taka gjald fyrir pappamál ef þau eru húðuð með plasti, en líka fyrir 100% pappamál sem fylgja plastlok.
Barir eiga að setja gjald á plastglös undir bjór og vín, og þá skiptir ekki máli hvort það séu hefðbundin plastglös eða plastglös úr lífplasti eins og t.d. PLA glös.
Ísbúðir eiga að setja gjald á ísbox úr pappír sem eru húðuð með plasti.