Vil­hjálmur Vern­harðs­son, staðar­haldari í Fjalla­dýrð í Möðru­dal, var einn þeirra sem að­stoðaði tugi ferða­manna sem sátu fastir á Austur­landi vegna ó­veðursins sem reið yfir í gær. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir hann að rúm­lega sjö­tíu manns hafa þurft á að­stoð að halda og að þau hafi eytt nóttinni í Möðru­dal.

„Það voru rúm­lega sjö­tíu manns sem gistu hjá okkur,“ segir Vil­hjálmur. „Þetta er fólk sem við þurftum að hjálpa, það var náttúru­lega bara von­laust veður og þetta er fólk sem lenti í því að eigin­lega allar rúður hjá þeim brotnuðu í veðrinu.“

Rúður brotnuðu og bílarnir fylltust af grjóti og snjó.
Mynd/Friðrik Árnason

Flestir bílarnir eru bíla­leigu­bílar, að sögn Vil­hjálms. „Þetta eru nánast allt bíla­leigu­bílar og megnið af þessum bílum eru ó­öku­hæfir, það eru engar rúður eftir í þeim eða neitt,“ segir hann.

Bíla­leigurnar hafi ekki enn komist með bíla fyrir ferða­mennina og því sitji flestir þeirra enn fastir í Möðru­dal. Fólkið hafi þó verið á­nægt yfir því að þeim hafi verið bjargað úr þessum að­stæðum. „Þegar það er búið að bjarga fólki úr svona að­stæðum, þá er það oft glatt og á­nægt við að komast í húsa­skjól,“ segir Vil­hjálmur.

Rauð veður­við­vörun var í gildi til klukkan níu í gær­kvöldi og við tók appel­sínu­gul við­vörun. Nú er gul við­vörun í gildi á Austur­landi. Vil­hjálmur segir veðrið í Möðru­dal vera betra núna en það var í gær. „Það er allt í lagi núna en það er að versna aftur,“ segir hann.

Bílar fuku saman í óveðrinu í gær.
Mynd/Friðrik Árnason

Lögreglan á Austurlandi segir lítið sem ekkert ferðaveður vera á Austurlandi og ekki sé gert ráð fyrir að um hægist fyrr en líður á daginn.

„Lokanir vega frá í gær standa enn frá Fáskrúðsfirði til suðurs að Skaftafelli, á Fagradal og Fjarðarheiði. Lítið sem ekkert ferðaveður er um Möðrudalsöræfi,“ segir í Facebook-færslu lögreglunnar á Austurlandi.

Bílarnir eru flestir óökuhæfir.
Mynd/Friðrik Árnason