Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um brotna rúðu í einni af byggingum Alþingis upp úr klukkan 4 í dag, samkvæmt dagbók lögreglunnar. Ekki er vitað um geranda. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu í hvaða byggingu Alþingis rúða var brotin.

Einnig þurftu lögreglumenn að hafa afskipti af ölvuðum ungum manni upp á þaki fjölbýlishúss í Hlíðum árla morguns, páskadag. Maðurinn hafði farið út á svalir íbúðar á 4. hæð og þaðan út á þakið. Maðurinn fór aftur inn í íbúðina eftir að lögreglumenn ræddu við hann.

Rétt fyrir 10 í morgun fékk lögreglan tilkynningu um eld í bílageymslu í Fossvogi. Einnig stoppaði lögregla bíl á Kringlumýrarbraut vegna gruns um fíkniefnavörslu. Lögreglan fann hníf í bílnum sem ökumaður átti og afsalaði hann hnífnum til eyðingar.