Rætt var um þolmarkadag jarðarinnar í Sprengisandi í dag. „Það er á þessum degi sem mannkynið er búið að fullnýta auðlindir jarðarinnar fyrir árið þannig að þær geta ekki endurnýjað sig,“ segir Guðrún Schmidt, sérfræðingur hjá Landvernd, í þættinum. „Eftir þennan þolmarkadag erum við að lifa á yfirdrætti til áramóta.“

Þolmarkadagurinn í ár var þann 28. júlí síðastliðinn samkvæmt útreikningum alþjóðasamtakanna Global Footprint Network. Þegar dagsetningin var reiknuð út í fyrsta sinn á áttunda áratugnum var hún í desember en hún hefur færst stöðugt framar nánast á hverju ári síðan þá. „Ein undantekning var til dæmis í Covid,“ segir Guðrún. „Þá var hægt að greina minni umsvif mannkyns á þennan hátt. Þetta er alþjóðleg rannsóknarstofnun sem reiknar út bæði þolmarkadaginn og líka vistsporið.“

„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það eru gríðarlegar breytingar sem við verðum að fara í og allir verða að vera samtaka um það,“ segir Guðrún aðspurð um hver rétt viðbrögð væru til að sporna við þessari þróun. „Ef ég byrja bara á einstaklingum, þá verður hver og einn að minnka okkar vistspor í þessari neyslumenningu sem við búum í og endurhugsa hvernig hið góða líf er og hverju við erum að sækjast eftir. Við getum tekið að minnka sóun og neyslu til dæmis. En svo verðum við að þrýsta á stórar breytingar í gegnum stjórnkerfin.“

Guðrún segir að ýmsum hlutum sé hægt að breyta og verði að breyta. „Við verðum að byggja hagkerfi á nægjusemi en ekki neysluhyggju og á jafnvægi en ekki stöðugum vexti. Það eru til hagfræðingar sem hafa búið til ýmis kerfi. Hringrásarhagkerfi er eitt, en við verðum að gera fleiri breytingar.“

„Við erum ekki að tala um að fara til baka í torfkofa,“ segir Guðrún. „En það er hægt að stjórnvöld verða að setja ýmsar reglur og takmörk og lög til að beina hagkerfinu í rétta átt. Af hverju eru vörur framleiddar á ósjálfbæran hátt? Af hverju eru þannig vörur fluttar inn?“

Þá segir Guðrún að varast beri grænþvott og aðgerðir sem skapi tálsýnir fremur en raunverulegan árangur. „Grænþvottur á sér stað þegar fyrirtæki, stjórnvöld eða stjórnmálaflokkar villa á sér heimildir með því að þykjast vera umhverfisvænni en þau eru. Í loftslagsmálum er ekki nóg að horfa bara á tölurnar heldur verður að horfa á allt í samhengi. Loftslagsmál geta ekki verið aðskilin öllum öðrum samfélagsmálum.“

Guðrún bendir á að rúmlega sjötíu prósent losunar íslenskra heimila komi vegna innfluttra vara. „Þannig erum við að útvista hluta af okkar losun til fátækra landa sem eiga síðan að bera ábyrgðina. Þetta er eins konar tálsýn og óraunhæf nálgun.“