„Ég hef gríðarlegar áhyggjur af stöðu leikskóla Reykjavíkurborgar. Leikskólakennurum í leikskólum borgarinnar fækkaði um 98 frá 2015 til 2018. Hlutfall starfandi leikskólakennara inni á deildum, af heildarfjölda starfsmanna, er tæp 20 prósent,“ segir Guðrún Jóna Thorarensen, leikskólastjóri og samráðsfulltrúi leikskólastjóra í Reykjavík.

Samkvæmt lögum á tveimur þriðju stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna að vera sinnt af menntuðum leikskólakennurum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni var þetta hlutfall um 28 prósent á landinu öllu árið 2018.

Guðrún bendir á að inni í tölum Reykjavíkurborgar séu aðstoðarleikskólastjórar sem margir vinni lítið sem ekkert inni á deildum. Hlutfall leikskólakennara sem vinni inni á deildunum sé því enn lægra.

„Ef þetta hlutfall lækkar enn meira og fer kannski nálægt tíu prósentum þurfum við bara að endurskilgreina þessa stofnun. Við getum þá ekki staðið undir þessum kröfum. Þetta er mjög alvarlegt mál og það verður að vera einhver samstaða um róttækar aðgerðir,“ segir Guðrún.

Reykjavíkurborg rekur 63 leikskóla og á þeim eru 294 deildir. Rétt rúmur helmingur deildarstjóra, eða 164, hefur leikskólakennaramenntun. Þess utan eru fimm leikskólar þar sem enginn faglærður leikskólastjóri starfar fyrir utan stjórnendur.

Þær breytingar urðu um áramót að nú er aðeins eitt leyfisbréf gefið út og gildir það fyrir kennslu í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

„Það er líka skortur á grunnskólakennurum og skólastjórar vita vel að leikskólakennarar hafa nýst mjög vel í yngstu bekkjum grunnskólans. Leikskólakennarar sækja auðvitað líka í betri vinnuaðstæður og það á eftir að koma í ljós í vor og sumar hversu margir færa sig yfir í grunnskólana.“

Þá sé endurnýjun í stéttinni nánast engin. Háskóli Íslands útskrifaði aðeins 22 leikskólakennara á árunum 2016-2019. Til viðbótar útskrifuðust 42 á sama tímabili með M.ed.-próf í menntunarfræði leikskóla, sem er viðbótarnám fyrir þá sem hafa aðra grunnmenntun.

„Afleiðingin af því hvað þetta ástand hefur varað lengi er sú að meðalaldur leikskólakennara fer mjög ört hækkandi. Nú eru aðeins fjögur prósent leikskólakennara yngri en 32 ára og 42 prósent eru eldri en 56 ára.“

Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara í Reykjavík skilaði í febrúar 2018 skýrslu og 33 tillögum til úrbóta. Guðrún segir að fátt af því hafi komist til framkvæmda.

„Það voru margar góðar tillögur þarna. Þær kostuðu um milljarð í framkvæmd en það voru settar rúmar 200 milljónir í þetta. Starfshópurinn talaði þá um neyðarástand sem strax þyrfti að bregðast við. Staðan í dag er enn verri.“

Guðrún segir einnig að borgin hafi vegna sparnaðar lítið sinnt viðhaldi leikskóla í rúman áratug.

„Stór hluti leikskóla er rekinn í lélegu og úr sér gengnu húsnæði. Starfsaðstæðurnar eru óviðunandi. Það eru mörg dæmi þess að leikskólastjórar hafi þurft að kalla til Vinnueftirlitið til að knýja á um bættar aðstæður starfsmanna, þar sem húsnæði hefur ekki staðist lágmarkskröfur.“

Guðrún bendir einnig á þá staðreynd að um níu prósent félaga í Félagi leikskólakennara hafi leitað eftir ráðgjöf og þjónustu hjá Virk starfsendurhæfingu í kjölfar langtímaveikinda. Það hlutfall sé fimm prósent hjá grunnskólakennurum og tvö prósent hjá framhaldsskólakennurum.

„Þessar tölur endurspegla það álag sem er í störfum leikskólakennara,“ segir Guðrún.

Borgin spari sér líka háar fjárhæðir í launakostnað þar sem menntaðir leikskólakennarar fáist ekki til starfa. Þá séu nú um 400 laus pláss í leikskólum borgarinnar sem ekki sé hægt að nýta sökum skorts á starfsfólki. Lausu plássin hafi verið 370 á síðasta ári og um 200 fyrir tveimur árum.

„Ég skil ekki af hverju leikskólinn þarf alltaf að vera svona fjársveltur. Þetta er örugglega ódýrasta stofnunin miðað við þjónustuna sem hún veitir. Vegna þess launaumhverfis sem leikskólinn býr við og vinnuaðstæðna starfsmanna er hann ekki samkeppnisfær við aðrar atvinnugreinar.“