Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, segir að rótleysi hans á unglingsárum og fram yfir tvítugt hafi leitt hann smám saman út í áhættuhegðun og síðar fíkniefnaneyslu sem svo hafi endað með ítrekuðu fíkniefnasmygli á amfetamíni og kókaíni á milli landa í Evrópu.
Hann leggur spilin á borðið í einkar persónulegu viðtali í þættinum Mannamáli hjá Sigmundi Erni Rúnarssyni á Hringbraut í kvöld þar sem ekkert er dregið undan í lýsingum á ljótum veruleika fíkniefnaviðskiptanna og fangelsisdvöl í Danmörku og heima á Íslandi.
Guðmundur Ingi segist hafa verið í vandræðum með sjálfan sig fram eftir þrítugsaldrinum, rótleysið og stefnuleysið í lífinu hafi verið eitt og vandamálið við að viðurkenna kynhneigð sína hafi verið annað, en til samans hafi eitt leitt af öðru – og hann breyttist í forhertan glæpamann á fáum árum undir aldamótin eftir að hann flutti til Spánar, opnaði þar bar á Benidorm, og varð raunar undrandi á því hvað Íslendingarnir sem flykktust á staðinn vildu kaupa mikið af dópi – og hversu breiður sá hópur var, en svo til allir virtust vilja vímuna.
Hann var tvisvar dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl og kveðst í fyrra skiptið hafa verið svo forhertur að honum hafi beinlínis þótt það flott og svalt að vera á bak við rimlana. Þar af leiðandi hafi hann sokkið niður á neðsta plan um leið og hann losnaði úr prísundinni í fyrra skiptið – og byrjað að selja fíkniefni á nýjaleik úti á Spáni.
En svo hafi ástin bankað á dyrnar, Tito, maðurinn hans frá Transilvaníu í Rúmeníu hafi gifst honum í fangelsinu í Danmörku, sem reyndist vera fyrsta brúðkaup samkynhneigðs pars í því baunska tukthúsi. Tito hafi breytt öllu fyrir Guðmund Inga og kúrsinn sömuleiðis; seinni fangelsisvistin hafi verið með allt öðru sniði en sú fyrri, nú skyldi hann taka til í lífi sínu og taka sér almennilegt tak – og það gekk eftir, en hann sannfærði sjálfan sig um að hann fengi ekki fleiri tækifæri í lífinu.
Og fíkniefnin eru að baki, smyglið líka – og nú stefnir þessi talsmaður fanga og jaðarsetts fólks á borð við heimilislausa í Reykjavík á borgarstjórn en hann sækist eftir í 3-5 sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík á vori komanda, reynslunni ríkari.
Hér má sjá brot úr viðtali Sigmundar Ernis við Guðmund Inga í Mannamáli á Hringbraut.