Rótin, fé­lag um konur, á­föll og vímu­gjafa, hljóta Mann­réttinda­verð­laun Reykja­víkur­borgar árið 2021 en Dagur B. Eggerts­son, borgar­stjóri, veitti verð­launin við há­tíð­lega at­höfn í dag í tengslum við mann­réttinda­dag Reykja­víkur. Þá hlaut Hin­segin fé­lags­mið­stöð, Sam­takanna ´78 og Tjarnarinnar Hvatningar­verð­laun mann­réttinda- og lýð­ræðis­ráðs 2021.

„Það er bara alveg ó­trú­lega á­nægju­legt að fá svona viður­kenningu á okkar starfi. Það er bara mjög mikils virði. Við erum náttúr­lega að mál­efnum þar sem hefur skort mann­réttindi, viður­kenningu og öðru­vísi nálgun. Margar af þessum konum hafa verið mjög jaðar­settar og fengið lé­lega þjónustu þannig að þetta er vonandi bara liður í því að byggja upp betra sam­fé­lag og þjónustu í kringum þennan hóp,“ segir Kristín I. Páls­dóttir, tals­kona og fram­kvæmda­stjóri Rótarinnar.

Þetta er í fjór­tánda sinn sem mann­réttinda­verð­launin eru veitt en þau eru veitt ein­stak­lingum, fé­laga­sam­tökum eða stofnunum sem hafa á eftir­tektar­verðan hátt staðið vörð um mann­réttindi. Hand­hafi verð­launanna hlýtur að launum 600.000 króna verð­launa­fé.

Mark­mið Rótarinnar eru að stofna til um­ræðu um konur, fíkn, á­föll, of­beldi og geð­heil­brigði og huga að sér­stökum með­ferðar­úr­ræðum fyrir konur. Fé­lagið vill að komið sé á sam­starfi á milli stofnana, sam­taka og annarra fag­aðila sem fást við vímu­efna­með­ferð, of­beldi og úr­vinnslu á­falla. Í um­sögn val­nefndar mann­réttinda­verð­launanna kemur fram að:

„Fé­lagið hefur haft mikil á­hrif á um­ræðu með upp­byggi­legri og rök­studdri gagn­rýni innan mála­flokksins, ekki síst á staðnað með­ferðar­kerfi. Fé­lagið hefur hvatt hið opin­bera til nú­tíma­legrar stefnu­mótunar og aukins gæða­eftir­lits og skrifað fjölda erinda til stjórn­valda, eftir­lits­aðila og annarra sem koma að þessum mála­flokki ”.

Kristín I. Páls­dóttir, tals­kona og fram­kvæmda­stjóri Rótarinnar.
Fréttablaðið/GVA

Á­fengis- og vímu­efna­vandi oft fylgi­fiskur of­beldis

Rótin var stofnuð árið 2013 og Kristín I. Páls­dóttir segir að fjöl­margt hafi á­unnist á þeim átta árum sem liðin eru frá stofnun fé­lagsins:

„Það er rosa­leg gerjun í þessum mála­flokki og það hefur margt gerst á undan­förnum árum. Það er heil­mikil breyting bara frá því að við stofnuðum Rótina árið 2013 og þar kannski ber helst að nefna breytingu í stefnu Reykja­víkur­borgar gagn­vart fólki með vímu­efna­vanda og fólki með flókinn vanda svo sem heimilis­leysi. Þar hefur orðið mjög mikill við­snúningur og er verið að byggja upp þjónustu,“ segir hún.

Kristín bendir á að mikill skortur hafi verið á þjónustu fyrir konur með vímu­efna­vanda og á­falla­sögu og í kjöl­far stofnunar Rótarinnar hafi sést skýrt hversu mikil þörf er á slíkri þjónustu.

„Það var farið að horfa í það af hverju það væru svona fáar konur sem sóttu þjónustu og þá kom í ljós að þjónustan var ekki fyrir hendi og þá náttúr­lega sækir enginn í þá þjónustu. Reykja­víkur­borg, Frú Ragn­heiður og fleiri hafa verið að skoða þetta sér­stak­lega fyrir konur og þá fara að koma fleiri konur og sækja í þjónustuna eftir því sem að meira er í boði,“ segir Kristín.

Hún segir Rótina leggja mikla á­hersla á heild­ræna nálgun við að skoða vanda­mál þessa sam­fé­lags­hóps en meðal þeirrar þjónustu sem fé­lagið býður upp á eru nám­skeið og leið­sagnar­hópar auk þess sem þau rekja Konu­kot, neyðar­skýli fyrir hús­næðis­lausar konur í Reykja­vík.

„Konur sem eru með á­fengis- og vímu­efna­vanda það er gríðar­legur sam­sláttur í því að þær hafi orðið fyrir of­beldi og svo er vímu­efna­vandinn fylgi­fiskur þess. Sú þjónusta sem við höfum verið að byggja upp miðar af því að vera með heild­ræna nálgun þar sem við erum ekki að miða þjónustuna við eitt vanda­mál eða einn sjúk­dóm, heldur konur með fjöl­þættan vanda og þeirra þarfir,“ segir Kristín.

Hin­segin fé­lags­mið­stöð hlýtur hvatningar­verð­laun

Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, for­maður mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs af­henti full­trúum Hin­segin fé­lags­mið­stöðvar, Sam­takanna ´78 og Tjarnarinnar hvatningar­verð­laun mann­réttinda-, ný­sköpunar- og lýð­ræðis­ráðs. Hvatningar­verð­launin eru veitt fyrir þróunar- og ný­breytni­starf ein­stak­linga, borgar­stofnana og fyrir­tækja á sviði mann­réttinda- og lýð­ræðis­mála fyrir verk­efni sem þykja stuðla að auknu jafn­ræði, vinna gegn marg­þættri mis­munun og leggja á­herslu á jafna stöðu allra kynja.

Í rök­stuðningi val­nefndar hvatningar­verð­launanna segir:

„Hin­segin fé­lags­mið­stöðin hefur miðlað góðri fræðslu til skóla og fé­lags­mið­stöðva um alla borg, fræðslu sem svo sannar­lega er mikil þörf fyrir og hefur stuðlað að auknum skilningi á líðan og stöðu hin­segin barna og ung­menna.“

Hin­segin­leikanum er sér­stak­lega fagnað í fé­lags­mið­stöðinni, hann er við­mið en ekki frá­vik. Lagt er upp með að skapa öruggt rými fyrir ein­stak­lingana sem sækja starfið og að þátt­taka í starfinu hvetji þau til að finna öryggi í að taka þátt í öðru skipu­lögðu frí­stunda­starfi.