Rótin, félag um konur, áföll og vímugjafa, hljóta Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2021 en Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn í dag í tengslum við mannréttindadag Reykjavíkur. Þá hlaut Hinsegin félagsmiðstöð, Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar Hvatningarverðlaun mannréttinda- og lýðræðisráðs 2021.
„Það er bara alveg ótrúlega ánægjulegt að fá svona viðurkenningu á okkar starfi. Það er bara mjög mikils virði. Við erum náttúrlega að málefnum þar sem hefur skort mannréttindi, viðurkenningu og öðruvísi nálgun. Margar af þessum konum hafa verið mjög jaðarsettar og fengið lélega þjónustu þannig að þetta er vonandi bara liður í því að byggja upp betra samfélag og þjónustu í kringum þennan hóp,“ segir Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar.
Þetta er í fjórtánda sinn sem mannréttindaverðlaunin eru veitt en þau eru veitt einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi. Handhafi verðlaunanna hlýtur að launum 600.000 króna verðlaunafé.
Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Í umsögn valnefndar mannréttindaverðlaunanna kemur fram að:
„Félagið hefur haft mikil áhrif á umræðu með uppbyggilegri og rökstuddri gagnrýni innan málaflokksins, ekki síst á staðnað meðferðarkerfi. Félagið hefur hvatt hið opinbera til nútímalegrar stefnumótunar og aukins gæðaeftirlits og skrifað fjölda erinda til stjórnvalda, eftirlitsaðila og annarra sem koma að þessum málaflokki ”.

Áfengis- og vímuefnavandi oft fylgifiskur ofbeldis
Rótin var stofnuð árið 2013 og Kristín I. Pálsdóttir segir að fjölmargt hafi áunnist á þeim átta árum sem liðin eru frá stofnun félagsins:
„Það er rosaleg gerjun í þessum málaflokki og það hefur margt gerst á undanförnum árum. Það er heilmikil breyting bara frá því að við stofnuðum Rótina árið 2013 og þar kannski ber helst að nefna breytingu í stefnu Reykjavíkurborgar gagnvart fólki með vímuefnavanda og fólki með flókinn vanda svo sem heimilisleysi. Þar hefur orðið mjög mikill viðsnúningur og er verið að byggja upp þjónustu,“ segir hún.
Kristín bendir á að mikill skortur hafi verið á þjónustu fyrir konur með vímuefnavanda og áfallasögu og í kjölfar stofnunar Rótarinnar hafi sést skýrt hversu mikil þörf er á slíkri þjónustu.
„Það var farið að horfa í það af hverju það væru svona fáar konur sem sóttu þjónustu og þá kom í ljós að þjónustan var ekki fyrir hendi og þá náttúrlega sækir enginn í þá þjónustu. Reykjavíkurborg, Frú Ragnheiður og fleiri hafa verið að skoða þetta sérstaklega fyrir konur og þá fara að koma fleiri konur og sækja í þjónustuna eftir því sem að meira er í boði,“ segir Kristín.
Hún segir Rótina leggja mikla áhersla á heildræna nálgun við að skoða vandamál þessa samfélagshóps en meðal þeirrar þjónustu sem félagið býður upp á eru námskeið og leiðsagnarhópar auk þess sem þau rekja Konukot, neyðarskýli fyrir húsnæðislausar konur í Reykjavík.
„Konur sem eru með áfengis- og vímuefnavanda það er gríðarlegur samsláttur í því að þær hafi orðið fyrir ofbeldi og svo er vímuefnavandinn fylgifiskur þess. Sú þjónusta sem við höfum verið að byggja upp miðar af því að vera með heildræna nálgun þar sem við erum ekki að miða þjónustuna við eitt vandamál eða einn sjúkdóm, heldur konur með fjölþættan vanda og þeirra þarfir,“ segir Kristín.
Hinsegin félagsmiðstöð hlýtur hvatningarverðlaun
Dóra Björt Guðjónsdóttir, formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs afhenti fulltrúum Hinsegin félagsmiðstöðvar, Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrir þróunar- og nýbreytnistarf einstaklinga, borgarstofnana og fyrirtækja á sviði mannréttinda- og lýðræðismála fyrir verkefni sem þykja stuðla að auknu jafnræði, vinna gegn margþættri mismunun og leggja áherslu á jafna stöðu allra kynja.
Í rökstuðningi valnefndar hvatningarverðlaunanna segir:
„Hinsegin félagsmiðstöðin hefur miðlað góðri fræðslu til skóla og félagsmiðstöðva um alla borg, fræðslu sem svo sannarlega er mikil þörf fyrir og hefur stuðlað að auknum skilningi á líðan og stöðu hinsegin barna og ungmenna.“
Hinseginleikanum er sérstaklega fagnað í félagsmiðstöðinni, hann er viðmið en ekki frávik. Lagt er upp með að skapa öruggt rými fyrir einstaklingana sem sækja starfið og að þátttaka í starfinu hvetji þau til að finna öryggi í að taka þátt í öðru skipulögðu frístundastarfi.