Náttúrustofa Suðausturlands setti upp sjálfvirka myndavél til að fylgjast með rostungnum á bryggjunni við Höfn í Hornafirði.

Á Facebook-síðu Náttúrustofu Suðausturlands má sjá myndband af rostungnum hvíla sig á bryggjunni áður en hann dreif sig út í daginn og stakk sér til sunds klukkan 06.43 í morgun. Þá hafði hann verið á bryggjunni í ellefu klukkustundir.

Rostungurinn hafði daginn áður kíkt á bæjarbúa í Höfn í Hornafirði. Þetta er kvendýr sem kom sér fyrir á bryggjunni og gæddi sér að gómsætum fiski í boði vegfarenda.

Konur af kvennakvöldi Sjálfstæðisflokksins voru meðal þeirra sem heilsuðu upp á dýrið. Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í samtali við Fréttablaðið að rostungurinn hefði verið miklu stærri en myndirnar gæfu til kynna.

Rostungurinn virtist ánægður með myndatökurnar.
Mynd/Valgerður Sigurðardóttir