Sam­tök ferða­þjónustunnar eru afar ó­sátt með gjald það sem rukkað verður við landa­mærin fyrir skimun ferða­manna. Ríkis­stjórnin til­kynnti í dag að gjaldið fyrir far­þega sem færu í skimun yrði 15 þúsund krónur. Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, segir gjaldið allt of hátt og rök­semdir fyrir gjald­tökunni „mesta bull“ sem hann hefur heyrt.

Jóhannes segir ljóst að gjaldið sé afar í­þyngjandi fyrir þá ferða­menn sem eiga bókaðar pakka­ferðir til landsins á næstu vikum. Þegar hafi hann heyrt af fjölda af­bókana slíkra ferða en hann bendir á að það séu fyrst og fremst þessar ferðir sem verði að bjarga. „Við erum fyrst og fremst að verja þær bókanir sem þegar hafa verið gerðar. Meiri­hluti þeirra bókana sem við eigum mögu­leika á að fá til Ís­lands eru bókanir sem hafa þegar verið gerðar,“ segir hann.

Hann segir aug­ljóst að fólk sem eigi þegar bókaðar ferðir sé ekki hrifið af auka­gjaldi sem leggist ofan á ferð þeirra. „Þetta er veru­lega í­þyngjandi. Ég er til dæmis búinn að vera að heyra af hópum sem ætluðu að koma frá Norður­löndunum þar sem þetta setur allt í upp­nám. Því þetta gjald er þá kannski orðið 15 prósent af kostnaðinum við ferðina og ef menn eru að fljúga frá Kaup­manna­höfn er þetta kannski 75 prósent af flug­miðanum.“

Hann segir að sam­tökin hefðu viljað sjá vægari leiðir. „Það þarf að horfa til þess að það að hafa lægra gjald getur orðið til þess að fleiri komi til landsins; af­bóki ekki ferðina sína eða jafn­vel á­kveði að bóka ferð hingað. Þá koma meiri verð­mæti inn í landið sem á endanum dreifast um sam­fé­lagið,“ segir Jóhannes.

Áhersla á að verkefnið borgi sig

Skimanir fyrir kórónu­veirunni í far­þegum sem koma til landsins munu hefjast þann 15. júní næst­komandi. Fyrstu tvær vikurnar verður ekki rukkað fyrir skimunina en að þeim loknum þarf hver sá sem kemur hingað til lands annað­hvort að greiða 15 þúsund krónur og fara í skimun ella fara í tveggja vikna sótt­kví.

Í greinar­gerð um efna­hags­leg sjónar­mið að­gerðarinnar, sem ríkis­stjórnin hafði til hlið­sjónar í á­kvarðana­töku sinni um gjald­tökuna, segir að það sé hag­fræði­lega rétt að kostnaðurinn við skimunina sé greiddur af far­þegunum sjálfum. Rökin í greinar­gerðinni eru meðal annars þau að beinar skatt­tekjur ríkis­sjóðs af hverjum ferða­manni séu á­ætlaðar 20 til 25 þúsund krónur. Sam­kvæmt bráða­birgða­kostnaðar­mat sem gert var er talið að kostnaður við hvert sýni, sem tekið verður við landa­mærin, verði 22.500 krónur ef tekin eru 500 sýni á dag. Hann verður þó meiri eftir því sem færri sýni eru tekin og fer alla leið upp í um 50 þúsund krónur ef að­eins eru tekin um hundrað sýni á dag.

Einnig er tekið fram að með því að rukka ferða­menn fyrir skimun megi stuðla að því að þeir sem komi hingað til lands séu efna­meiri ferða­menn sem eyði meiru og dvelji hér lengur. Rök­semdirnar fyrir rukkuninni virðast því vera þær að ríkis­sjóður eyði ekki meiru í verk­efnið en hann er að fá til sín í beinum skatt­tekjum af ferða­mönnum.

Gallaður rökstuðningur


Jóhannes Þór segir þessa rök­semda­færslu sýna al­gera van­þekkingu á því hvernig ferða­þjónustu­greinin virkar. Hann segir málið ekki snúast um hvað ríkis­sjóður fái í beinar skatt­tekjur af ferða­mönnum:

„Það er ekki verið að horfa á öll ó­beinu og af­leiddu á­hrif af komu ferða­mannsins til landsins. Vegna þess að ef að ferða­maðurinn kemur ekki til landsins þá er eitt­hvað fyrir­tæki hér, sem seldi honum ferðina, sem tapar. Það fyrir­tæki er svo með fólk í vinnu og kannski eig­endur sem hafa veð­sett húsin sín. Þangað koma ekki tekjur og þá er ekki hægt að nota þær til að greiða laun, sem þýðir að fólk missi vinnuna. Það lendir þá á fram­færi ríkisins á at­vinnu­leysis­bótum, sem tapar þá á þessu eftir allt saman.“

Hann segir að nú þegar hafi hann heyrt af fyrir­tæki sem hafi misst fjölda bókana í dag. „Það þarf lík­lega í kjöl­farið að segja upp tíu starfs­mönnum fyrir sumarið. Þannig að þar eru strax beinar af­leiðingar af þessari á­kvörðun í dag,“ segir Jóhannes.

Um þann rök­stuðning að gjald­taka fyrir skimun geti virkað sem hvati fyrir efna­meiri ferða­menn hefur hann lítið gott að segja. „Þetta er bara mesta bull sem ég hef heyrt. Þetta er bara al­gjör steypa ef ég á að nota hreina ís­lensku,“ segir hann. Hann bendir aftur á að málið snúist fyrst og fremst um að vernda þær ferðir í sumar sem voru þegar bókaðar. Einnig segir hann að heimurinn virki ekki þannig að fólk sem á næga peninga sé að leitast eftir því að spandera þeim.

„Efna­meiri ferða­menn, þeir kaupa sér allt eins flug­ferðir til landsins sem kosta minna. Þegar svona er sett fram þá er eins og það sé ein­hvern veginn eftir­sóknar­verðara að fá hér fleiri ferða­menn sem eru til­búnir að borga hátt verð fyrir skimun og það sé þá allt í lagi að það detti út ein­hverjir sem eru með minni fjár­ráð,“ heldur hann á­fram og segir að í rauninni séu þessir hópar að eyða jafn miklu á landinu þegar uppi er staðið. „Því miður er ýmis­legt í þessari efna­hags­greiningu sem gefur manni þá hug­mynd að það hafi ekki verið horft nægi­lega til þess hvernig þessi grein virkar í raun og veru,“ segir hann að lokum.