Landsréttur staðfesti í gær fjórtán mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni fyrir ýmis brot. Ákæruliðirnir voru níu talsins og játaði maðurinn sök í átta þeirra, en þau brot vörðuðu smávægilegan þjófnað og vörslu fíkniefna.

Maðurinn var sakfelldur í öllum ákæruliðunum, þar með töldum þeim þar sem hann neitaði sök, en sá ákæruliður var ef til vill eftirtektarverðastur, þar sem hann varðaði rosalega eftirför lögreglu um Reykjanesbraut, Sæbraut og Dalveg.

Klessti á lögguhjól

Manninum var gefið að söl að hafa ekið bifhjóli sviptur ökuréttindum og undir áhrifum fíkniefna í apríl 2020.

„Er lögregla hugðist stöðva akstur ákærða sinnti hann ekki fyrirmælum lögreglu um stöðva bifhjólið sem gefin voru til kynna með forgangsljósum og hljóðmerkjum og hófst í framhaldinu eftirför lögreglu eftir bifhjóli ákærða,“ segir í ákærunni.

Þá segir að maðurinn hafi keyrt á 136 kílómetra hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er sextíu kílómetrar á klukkustund.

Við gatnamót Sæbrautar og Dalvegar ók maðurinn síðan bifhjólinu gegn rauðu ljósi og klessti þar á bifhjól lögreglu. Bæði hjólin féllu í jörðina og hófst þá eftirför lögreglu á fæti sem endaði með handtöku mannsins í garði í Reykjavík.

Dómurinn féll í Landsrétti í gær.

Ók milli bíla án þess að slá af

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu ákvað lögregluþjónn að stöðva hjólið þar sem það var ljóslaust, síðan komst hann jafnframt að því að skráningarmerki vantaði á hjólið og að á því væru tveir, ökumaður og farþegi.

Ökumaðurinn hafi aukið hraðann þegar lögregla gaf honum fyrirmæli um að stöðva hjólið og því var óskað eftir liðsauka.

Í skýrslunni er rosalegum akstri lýst þar sem hjólinu var ekið „á milli bifreiða við gatnamót Sæbrautar og Kleppsmýrarvegar án  þess  að  slá  af  hraða.“ Líkt og áður segir endaði hjólið þó á bifhjóli lögreglunnar og ákváðu því ökumaðurinn og farþeginn að hlaupa á brott.

Handtekinn á bak við grill í garði

Líkt og áður segir neitaði maðurinn sök. Hann sagðist þó kannast við atvikið og vildi meina að hann hefði verið farþegi hjólsins, en ekki ökumaður þess. Þó vildi hann ekki gefa upp hver ökumaðurinn væri.

Hann sagði að bifhjólið hefði endað á hliðinni og þeir ákveðið að hlaupa í garð í nágrenninu. Ástæðan fyrir því var að hans sögn sú að hann var með fíkniefni á sér. Maðurinn kvaðst hafa stokkið yfir girðingu og beðið í trjánum þangað til lögregla kom átta til tíu mínútum seinna.

Lögreglumaðurinn endaði á að handtaka hann bak við grill á palli í garðinum, en fram kemur að hann hafi þekkt manninn af klæðnaði hans, og þá hafi hann séð þegar hann tók hjálminn af sér.

Klæðnaður mannsins til umræðu

Fyrir dómi var nokkur ágreiningur um klæðnað mannsins, en ákærði vildi meina að hann hefði farið úr skónum og ökumaðurinn gefið honum sína skó en síðan farið á brott skólaus. Lögreglumaðurinn sagði það ekki geta gengið upp.

Framburður ákærða þótti vera í ósamræmi við annað sem kom fram í málinu og var því metinn ótrúverðugur. Fram kemur að hann eigi sakaferill sem nái aftur til ársins 2006, en síðan hafi hann oft fengið refsidóma fyrir ýmis brot.

Líkt og áður segir staðfesti Landsréttur dóm héraðsdóm og dæmdi manninn í fjórtán mánaða fangelsi. Auk þess var hans sviptur ökuréttindum ævilangt og voru fíkniefni í vörslum hans gerð upptæk.