Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vísar því á bug að bærinn hafi gert samning við Kviku banka áður en söluferlið var samþykkt í bæjarráði.

„Ákvörðun um að fara í söluferli og að semja við Kviku var tekin að vel íhuguðu máli en fyrirtækið hafði séð um sölu á hlut í HS-veitum nokkrum mánuðum áður og þekkti því félagið afar vel og allan grundvöll fyrir hugsanlegu söluferli á þessum tímapunkti. Endanleg ákvörðun um að fara í söluferlið var síðan tekin í bæjarráði, eftir að mat hafði verið lagt á getu Kviku til að ná góðri niðurstöðu fyrir Hafnarfjörð og að samið væri þannig að tryggt væri að áhætta bæjarins væri lágmörkuð, m.a. með því að bærinn gæti dregið sig út úr ferlinu án kostnaðar,“ segir Rósa.

„Það hefði verið mun ábyrgðarlausara að leggja það fyrir bæjarráð að samþykkja að fara í söluferli áður en fyrir lægi að grundvöllur væri fyrir að fara í slíka vegferð.“