Náðst hefur samkomulag um myndun nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Hafnarfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokkunum.
„Síðustu daga hefur verið unnið að málefnasamningi flokkanna og verður hann kynntur á næstu dögum. Helstu verkefni nýs meirihluta verða að undirbúa þá miklu íbúafjölgun sem framundan er á kjörtímabilinu, stuðla áfram að kröftugri uppbyggingu fjölbreytts íbúðarhúsnæðis, tryggja öfluga og skilvirka þjónustu, velferð fyrir alla aldurshópa og halda áfram ábyrgri fjármálastjórnun,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að flokkarnir hafi komist að þeirri niðurstöðu að Rósa Guðbjartsdóttir verði bæjarstjóri til 1. janúar 2025 og Valdimar Víðisson taki þá við starfinu. Þangað til verður hann formaður bæjarráðs. Kristinn Andersen verður forseti bæjarstjórnar út kjörtímabilið.