Meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði samþykkti ráðningarsamning við Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra á fundi bæjarráðs í gær. Laun hennar verða 2.239.010 krónur.
1.247.787 krónur eru grunnlaun en ofan á það eru greiddir 50 fastir yfirvinnutímar, alls 647.913 krónur. Þá fær Rósa 286.310 krónur fyrir störf sín sem bæjarfulltrúi og 57.000 krónur í akstursstyrk. Inni í þessum tölum eru ekki önnur hlunnindi sem bæjarstjóri fær, svo sem kostnaður við síma og nettengingu.
Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar, lagði til að laun Rósu fylgdu ráðherralaunum, yrðu 1.826.273 krónur og ökutækjastyrkur yrði afnuminn. Einnig að gerð verði starfslýsing á starfi bæjarstjóra þar sem starfssvið, réttindi og skyldur yrðu skilgreind. Var sú tillaga felld.