Meiri­hluti Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks í Hafnar­firði sam­þykkti ráðningar­samning við Rósu Guð­bjarts­dóttur bæjar­stjóra á fundi bæjar­ráðs í gær. Laun hennar verða 2.239.010 krónur.

1.247.787 krónur eru grunn­laun en ofan á það eru greiddir 50 fastir yfir­vinnu­tímar, alls 647.913 krónur. Þá fær Rósa 286.310 krónur fyrir störf sín sem bæjar­full­trúi og 57.000 krónur í aksturs­styrk. Inni í þessum tölum eru ekki önnur hlunnindi sem bæjar­stjóri fær, svo sem kostnaður við síma og net­tengingu.

Jón Ingi Hákonar­son, full­trúi Við­reisnar, lagði til að laun Rósu fylgdu ráð­herra­launum, yrðu 1.826.273 krónur og öku­tækja­styrkur yrði af­numinn. Einnig að gerð verði starfs­lýsing á starfi bæjar­stjóra þar sem starfs­svið, réttindi og skyldur yrðu skil­greind. Var sú til­laga felld.