Rósa Ingólfsdóttir leikari, athafnakona og þekktasta þula íslenskrar sjónvarpssögu er látin. Fjölmiðlakonan Klara Egilson, dóttir Rósu, greinir frá því að móðir hennar hafi fallið frá snemma í morgun á Hjúkrunarheimilinu Hamrar. Rósa var ekki einhöm og vakti einnig athygli sem söng- og myndlistarkona og svo fátt eitt sé nefnt.

Rósa fæddist þann 5. ágúst 1947. Foreldrar hennar voru Klara Halldórsdóttir og Ingólfur Sveinsson, en Rósa var yngst þriggja systkina.

Rósa var fyrsti teiknari Ríkisútvarpsins en hún útskrifaðist út Mynd- og handíðaskólanum. Árið 1992 kom út ævisaga Rósu sem Jónína Leósdóttir skráði.

Rósa var dýrkuð og dáð af stórum hópi Íslendinga, fyrir frammistöðu í sjónvarpi og einnig fyrir að hafa kjark til að segja skoðun sína hispurslaust. Frægt var þegar Rósa gagnrýndi rauðsokkur og kommúnista. Taldi hún að betur færi á að karlar stjórnuðu samfélaginu. Viðtal við Rósu sem birt var árið 1982 vakti mikla athygli. Þar sagði Rósa:

„Konur eru mjög vel gefnar, alveg til jafns við karlmenn. En bara tilfinningarnar. Þær eru svo mikið öðruvísi. Þess vegna finnst mér að konur eigi ekki að setja sér stjórnmálalegt markmið. Stjórnmálalegur frami er ekkert takmark fyrir konur og þetta er persónuleg skoðun mín. Stjórnmál eru ekki það rétta fyrir konur.“

Klara Egilson, dóttir Rósu minnist móður sinnar í fallegri kveðju á Facebook-síðu sinni. Hún gaf Fréttablaðinu leyfi til að vitna í minningarorðin.

„Elskuleg móðir mín, Guðmunda Rósa Ingólfsdóttir, auglýsingateiknari, stórleikkona, ljóðskáld, tónlistarkona, baráttumanneskja, frumkvöðull, fegurðardís, myndlistarkona, vinkona, lífsfélagi, samferðamanneskja, húmoristi, pistlahöfundur, þáttagerðarmanneskja, sjónvarpsþula, sálufélagi og trúnaðarvinur andaðist snemma í morgun, þann 14. janúar 2020, á Hjúkrunarheimilinu Hamrar, í Mosfellsbæ.

Hún hlaut friðsælt andlát og var umvafin ást, hlýju og kærleika til síðasta andartaks.

Sofðu rótt, elsku mamma mín. Ég unni þér.“