Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, sagði sig í dag úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og úr hreyfingunni. Hún tilkynnti Katrínu Jakobsdóttur, formanni VG, úrsögn sína á fundi í dag.
Hún hefur setið á þingi fyrir VG síðan í maí 2016 sem oddviti VG í suðvesturkjördæmi og 3. þingmaður kjördæmisins.
Engin samleið lengur
„Nýlegir atburðir er varða brottvísun stjórnvalda á barnafjölskyldu sem hefur beðið eftir lausn sinna mála í 25 mánuði og viðbrögð ríkisstjórnar sem VG er í forystu fyrir í því máli, urðu til þess að ég finn endanlega að ég á ekki lengur samleið með þingflokki VG,“ segir Rósa í fréttayfirlýsingu.
„Þetta er alls ekki auðveld ákvörðun, sér í lagi gagnvart kjósendum VG og félögum VG í í suðvesturkjördæmi. Ég þakka þeim kærlega fyrir stuðninginn, traustið og samfylgdina síðastliðin ár og vonast eftir því að þau sýni ákvörðun minni skilning.“
Hún hyggst áfram starfa á Alþingi og huga að mannréttindum, umhverfis- og loftslagsmálum, kynjajafnrétti og fleiri málum.
Loforð ríkisstjórnarinnar á hakanum
„Þetta mál er samt þess eðlis að það er ekki hægt annað en að taka afstöðu með mannúðinni, með réttindum barna á flótta sem hér hafa fest rætur og myndað tengsl. Og taka afstöðu gegn því að íslensk yfirvöld vísi á brott börnum og barnafjölskyldum.“
Rósa greinir frá því að síðastliðin þrjú ár sem VG hefur setið í ríkisstjórn hafi lítið sem ekkert miðað í átt að móta hér nýja stefnu í málefnum innflytjenda og hælisleitenda eða að fylgja mannúðarsjónarmiðum í málaflokknum, sem er þó það sem ríkisstjórnin lofaði. „Það er mjög miður.“
Dapurlegt aðgerðarleysi
Rósa er formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis. „Sem varaformaður flóttamannanefndar Evrópuráðsþingsins hef ég fengist mikið við málefni fólks á flótta og sérstaklega mála sem varða barna á flótta sem ég hef unnið ötullega að,“ segir Rósa.
„Í því ljósi finnst mér þessi stefnubreyting og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sérstaklega dapurleg og bera vitni um afstöðu sem er langt frá því sem afstaða VG í þessum málaflokki hefur verið hingað til og langt frá því sem við bárum fram bæði í stjórnarandstöðu og fyrir kosningar.“