Þingmaðurinn Rósa Björk Brynjólfsdóttir er gengin til liðs við þingflokk Samfylkingarinnar. Hún hefur setið utan flokka á Alþingi frá því að hún sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna í september.

Rósa Björk greinir frá þessu í yfirlýsingu til fjölmiðla en fram kemur í frétt RÚV að hún hafi setið sinn fyrsta þingflokksfund með Samfylkingunni í dag.

Rósa Björk studdi ekki núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknar líkt og þáverandi samflokksmaður hennar Andrés Ingi Jónsson. Hann hefur sömuleiðis sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna og situr nú utan flokka á Alþingi.

Loftslags- og umhverfismál gert útslagið

„Pólitískar áherslur mínar og Samfylkingarinnar eru nátengdar með mikilvægi á aukinn jöfnuð í samfélaginu þar sem allir geta notið sín á eigin forsendum, burtséð frá stétt eða stöðu en líka á frið og sjálfbærni og opið, framsækið og fjölbreytt samfélag með áherslu á virka fjölþætta utanríkisstefnu,“ segir Rósa Björk í yfirlýsingu.

Þá segist hún hlakka mjög mikið til að taka þátt í starfi flokksins.

„Að undanförnu hefur Samfylkingin að auki lagt mun meiri og skýrari þunga á loftlagsmálin, og umhverfismálin en áður og lagt fram góða áætlun um græna viðspyrnu út úr Covid-19 kreppunni. Það gerir útslagið fyrir mig þegar kemur að því að taka þessa ákvörðun um að ganga í Samfylkinguna og þingflokk hennar.“

Fréttin hefur verið uppfærð.