Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem datt út sem jöfnunarþingmaður eftir endurtalningu atkvæða í nýliðnum kosningum, segist nú íhuga alvarlega kæru til kjörbréfanefndar sem kemur saman til fundar eftir helgi.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í færslu sem Rósa Björk skrifaði á Facebook-síðu sína í gærkvöldi. Í færslu sinni segir hún að kjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hafi farið í endurtalningu atkvæða án þess að nokkur hefði krafist endurtalningar eins og ber að gera lögum samkvæmt.
„Lögmæti og virðing þingkosninga á Íslandi er í húfi og lögmæti nýs þings sem ætlar að dæma sjálft sig lögmætt eða ekki. Þessir atburðir og vafi um lögmæti Alþingis munu alltaf hanga yfir þessu þingi ef það ákveður að láta sem ekkert hafi í skorist.“
Rósa segir ljóst að við búum við gölluð kosningalög og bendir á að ákvæði í stjórnarskránni samræmist ekki Mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur fyrir löngu lögfest.
„Við höfum ekki efni á öðru Landsréttar-hneyksli sem var alþjóðleg auðmýking og lamaði millidómstig okkar í næstum eitt og hálft ár. Við getum ekki látið spyrjast um okkur að geta ekki uppfyllt kröfur um réttlátar og löglegar þingkosningar að auki. Nú hefur fjöldi fólks haft samband við mig og sent mér hvatningu og uppörvun. Mér þykir óendanlega vænt um það og þakka fyrir það af öllu hjarta en þetta mál er stærra en persónulegir hagsmunir mínir,“ segir hún.
Í færslu sinni segir hún einnig að rétturinn til að kjósa sé grunnur að lýðræðislegu stjórnarfari. Fólk verði að geta treyst því að atkvæði þess sé varðveitt og komist ómengað til skila. Til þess séu kosningalög í gildi.
„Ég hef líka sjálf séð með eigum augum í kosningaeftirliti erlendis hvað kosningarétturinn og réttlátar kosningar skiptir fólk gríðarlega miklu máli þó að við höfum alltof oft tekið þeim rétti sem gefnum. Munum líka að kosningarétturinn kom ekki til okkar heldur börðust fyrri kynslóðir fyrir honum.“
Rósa segist strax hafa tekið þá ákvörðun að ræða ekki við fjölmiðla vegna málsins en í færslu sinni kveðst hún vera búin að óska eftir gögnum frá landskjörstjórn og hafa komið formlegum mótmælum til landskjörstjórnar. Kveðst hún nú vera að íhuga alvarlega kæru til kjörbréfanefndar sem kemur saman eftir helgi.
„Það er nefnilega ekki hægt að taka þetta klúður með léttvægum hætti. Ég vona að fólkið í kjörbréfanefnd taki rétta ákvörðun með hagsmuni lýðræðislegra þingkosninga að leiðarljósi.“