Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, sem datt út sem jöfnunar­þing­maður eftir endur­talningu at­kvæða í ný­liðnum kosningum, segist nú í­huga al­var­lega kæru til kjör­bréfa­nefndar sem kemur saman til fundar eftir helgi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í færslu sem Rósa Björk skrifaði á Face­book-síðu sína í gær­kvöldi. Í færslu sinni segir hún að kjör­stjórn í Norð­vestur­kjör­dæmi hafi farið í endur­talningu at­kvæða án þess að nokkur hefði krafist endur­talningar eins og ber að gera lögum sam­kvæmt.

„Lög­mæti og virðing þing­kosninga á Ís­landi er í húfi og lög­mæti nýs þings sem ætlar að dæma sjálft sig lög­mætt eða ekki. Þessir at­burðir og vafi um lög­mæti Al­þingis munu alltaf hanga yfir þessu þingi ef það á­kveður að láta sem ekkert hafi í skorist.“

Rósa segir ljóst að við búum við gölluð kosninga­lög og bendir á að á­kvæði í stjórnar­skránni sam­ræmist ekki Mann­réttinda­sátt­mála Evrópu sem Ís­land hefur fyrir löngu lög­fest.

„Við höfum ekki efni á öðru Lands­réttar-hneyksli sem var al­þjóð­leg auð­mýking og lamaði milli­dóm­stig okkar í næstum eitt og hálft ár. Við getum ekki látið spyrjast um okkur að geta ekki upp­fyllt kröfur um rétt­látar og lög­legar þing­kosningar að auki. Nú hefur fjöldi fólks haft sam­band við mig og sent mér hvatningu og upp­örvun. Mér þykir ó­endan­lega vænt um það og þakka fyrir það af öllu hjarta en þetta mál er stærra en per­sónu­legir hags­munir mínir,“ segir hún.

Í færslu sinni segir hún einnig að rétturinn til að kjósa sé grunnur að lýð­ræðis­legu stjórnar­fari. Fólk verði að geta treyst því að at­kvæði þess sé varð­veitt og komist ó­mengað til skila. Til þess séu kosninga­lög í gildi.

„Ég hef líka sjálf séð með eigum augum í kosninga­eftir­liti er­lendis hvað kosninga­rétturinn og rétt­látar kosningar skiptir fólk gríðar­lega miklu máli þó að við höfum allt­of oft tekið þeim rétti sem gefnum. Munum líka að kosninga­rétturinn kom ekki til okkar heldur börðust fyrri kyn­slóðir fyrir honum.“

Rósa segist strax hafa tekið þá á­kvörðun að ræða ekki við fjöl­miðla vegna málsins en í færslu sinni kveðst hún vera búin að óska eftir gögnum frá lands­kjör­stjórn og hafa komið form­legum mót­mælum til lands­kjör­stjórnar. Kveðst hún nú vera að í­huga al­var­lega kæru til kjör­bréfa­nefndar sem kemur saman eftir helgi.

„Það er nefni­lega ekki hægt að taka þetta klúður með létt­vægum hætti. Ég vona að fólkið í kjör­bréfa­nefnd taki rétta á­kvörðun með hags­muni lýð­ræðis­legra þing­kosninga að leiðar­ljósi.“