Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, vill leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, kraganum svokallaða.

„Ég hef tekið ákvörðun um að sækjast eftir að leiða lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, fjölmennasta kjördæmi landsins,“ segir Rósa Björk í yfirlýsingu til fjölmiðla.

„Það kjördæmi þekki ég vel enda þingmaður þess frá 2016. Ég hef fulla trú á að stefna og sýn Samfylkingarinnar eigi mikinn hljómgrunn hjá kjósendum í Suðvesturkjördæmi, sem og annars staðar og mun ég leggja mig alla fram um að vinna vel í þágu þeirra, nú sem áður. Ég hlakka til að takast á við krefjandi en spennandi verkefni á næsta kjörtímabili,“ segir Rósa einnig í tilkynningu sinni.

Helga Vala og Kristrún leiða lista í Reykjavík

Rósa Björk gaf kost á sér í uppstillingarferli flokksins fyrir Reykjavíkurkjördæmin, og varð hún meðal efstu fimm í könnun sem gerð var meðal félagsmanna flokksins í borginni. Af tilkynningu Rósu í dag er ljóst að henni hefur ekki staðið til boða að leiða lista Samfylkingarinnar í borginni og því allar líkur á að Helga Vala Helgadóttir og Kristrún Frostadóttir muni leiða í kjördæmunum tveimur í Reykjavík.

Nokkur stirr hefur staðið um störf uppstillingarnefndar flokksins í Reykjavík, en Fréttablaðið greindi frá því að Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður flokksins og oddviti annars Reykjavíkurkjördæmisins, hefði ekki verið meðal efstu fimm í fyrrnefndri könnun meðal flokksmanna. Hann hefur nú lýst yfir að honum hafi verið boðið þriðja sæti á lista og af yfirlýsingu hans er ljóst að hann muni ekki þyggja það boð.

Aðrir sem voru meðal efstu fimm í könnuninni eru Jóhann Páll Jóhannsson fyrrverandi blaðamaður og Ragna Sigurðardóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna. Ætla má að þau verði bæði ofarlega á listum flokksins í borginni, en uppstillingarnefnd hefur ekki sent frá sér tilkynningu um efstu sæti.