Helga Vala Helga­dóttir, þing­kona og Krist­rún Frosta­dóttir, hag­fræðingur munu leiða lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík fyrir þing­kosningarnar í haust. Rósa Björk Brynjólfs­dóttur, ný þing­kona flokksins og blaða­maðurinn Jóhann Páll Jóhanns­son munu skipa 2 sæti á listunum.

Þetta verður kynnt á fundi Samylkingarinnar í Reykja­vík á morgun þar sem heild­stæðir listar kjör­dæmanna í Reykja­vík verða bornir upp til sam­þykktar. Rósa Björk gekk í Sam­fylkinguna skömmu fyrir jól og gaf kost á sér til fram­boðs fyrir flokkinn í Reykja­vík.

Hún vatt svo skyndi­lega kvæði sínu í kross og gaf kost á sér til fram­boðs í Kraganum. Nú mun henni aftur hafa snúist hugur og verður í fram­boði í Reykja­vík, verði fram­boðs­listarnir stað­festir á fundi flokksins á morgun.

Jóhanna Vig­dís Guð­munds­dóttir, vara­þing­maður Sam­fylkingarinnar, sagði sig úr flokknum í gær, eins og Frétta­blaðið greindi fyrst frá. Lýsti hún yfir von­brigðum með það hve hátt ný­liðum væri gert undir höfði á lista flokksins í að­draganda kosninga.

„Ég verð þó að viður­­kenna að það eru mér von­brigði að upp­­­stillingar­­nefnd í Reykja­­vík kjósi að bjóða ný­liðum, hæfu fólki sem sannar­­lega er meira en vel­komið til starfa – og þó fyrr hefði verið - að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykja­víkur­­kjör­­dæmunum fyrir kosningar til Al­þingis næsta haust,“ stóð meðal annars í bréfinu sem Jóhanna Vig­dís sendi frá sér í gær til fjöl­miðla.

Áður hafði þing­maðurinn Ágúst Ólafur Ágústs­son lýst því yfir að hann hafi ekki þegið boð upp­stillinga­nefndarinnar um 3. sæti á lista.