„Það er svolítið gaman að safna fyrir einhverju sem tengist börum og veitingastöðum í borginni,“ segir Sóley Kristjánsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni en hún afhenti í gær ávísun af ágóða Negroni-kokteilsins til Römpum upp Reykjavík.

Negroni-vikan var haldin í síðustu viku en þá lögðust þúsundir barþjóna og fólk á börum og veitingastöðum um allan heim á eitt og söfnuðu fé til góðgerðarmála. Aldrei hafa fleiri veitingastaðir og barir tekið þátt í þessu hér á landi en 20 veitingastaðir og barir lögðu málefninu lið.

Síðustu níu ár hefur Negroni-vikan safnað yfir þremur milljónum dollara í yfir 70 löndum.Í ár var safnað fyrir átakinu Römpum upp Reykjavík, þar sem aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu og veitingahúsum í miðborginni er bætt.

Við afhendinguna sagði Þorleifur Gunnlaugsson, formaður stjórnar í aðgengissjóði Reykjavíkur, að 90 rampar væru komnir upp og stefnt væri á að taka þann síðasta í notkun í byrjun nóvember. Hann minnti á að hver króna skipti máli og hvert sem aðstandendur sjóðsins fóru hefðu þau mætt miklum velvilja.

Ósk Sigurðardóttir frá Sjálfsbjörg benti á að verkefnið auki félagslega virkni hreyfihamlaðra, dragi úr einangrun og gefi fólki tækifæri til þess að taka virkan þátt í samfélaginu, umgangast vini og ættingja og lifa lífinu til fullnustu.

„Gott aðgengi skiptir alla máli, en hreyfihamlaða öllu máli.“Erlendis voru sjö heimsþekktir barþjónar sem gerðu tilbrigði við hinn klassíska Negroni en Ölgerðin, sem er umboðsaðili Campari á Íslandi, leitaði til þriggja barþjóna sem gerðu tilraunir með tilbrigði við klassískan Negroni.

Þau Sævar á Fjallkonunni, Alana yfirbarþjónn á Héðni og svo Ívan Svanur sem rekur Kokteilaskólann prufuðu alls kyns aðferðir og ýmis tilbrigði eins og að eima, reykja og freyða Negroni og notuðu alls kyns tegundir af ginum og vermúðum en ómissandi þungamiðjan í Negroni er auðvitað hinn fagurrauði Campari.

Meira en 100 ár eru liðin síðan Negroni-kokteillinn var fundinn upp og er enn í dag einn vinsælasti kokteill heims. Sóley segir að þetta sé spjátrungakokteill sem barþjónar drekki þegar þeir hitta aðra barþjóna.„Þetta er uppáhaldskokteill barþjóna og þetta er eiginlega ókrýndur konungur þeirra. Campari er eins og kaffi og það finnst fáum það gott í fyrsta kasti en allt í einu verður þetta það besta sem þú færð,“ segir Sóley.