Donald Trump fær að heyra það frá flokks­bróður sínum í nýjum pistli þar sem hann er hann er sagður ó­verðugur í em­bætti for­seta Banda­ríkjanna. Mitt Rom­n­ey, fyrrum for­seta­fram­bjóðandi Repúblikana­flokksins og verðandi öldunga­deildar­þing­maður, segir að Trump hafi alið á ótta og skelfingu í heiminum. 

Rom­n­ey laut í lægra haldi gegn Barack Obama í for­seta­kosningunum 2012. Í kosningunum í nóvember var hann kjörinn öldunga­deildar­þing­maður fyrir Utah-ríki og mun hann taka sæti þar á morgun. 

Í pistlinum, sem birtist fyrst í Was­hington Post, hrósar Rom­n­ey Trump fyrir ýmsa hluti. Þar nefnir hann meðal annars skatta­mál og skipun dómara við hæsta­rétt landsins. 

Hins vegar væri ekki hægt að líta fram hjá því að þjóðinni væri skipt í fylkingar. And­rúms­loftið ein­kenndist af gremju og reiði. Það væri því mikil­vægt að æðsti vald­hafi landsins, for­setinn sjálfur, væri leið­togi og sam­einingar­tákn. 

„Heimurinn fylgist líka með,“ bætti Rom­n­ey við. Hann kveðst ætla að halda á­fram að styðja Trump þegar kemur að á­kvarðana­töku í málum er vörðuðu Banda­ríkin eða Utah, en á­skilur sér rétt til þess að mót­mæla gjörðum sem ein­kennast af rasískum undir­tón, kven­fyrir­litningu, ó­vild í garð inn­flytj­enda eða þeim sem bein­línis skaða lýð­ræðið. 

Tíma­setning skoðana­greinar Rom­neys þykir sér­kenni­leg, en hann mun á morgun taka sæti í öldunga­deildinni, líkt og fyrr segir. Ein­hverjir vilja meina að Rom­n­ey sé að gera sig lík­legan í fram­boð fyrir for­seta­kosningarnar árið 2020, en víst þykir að Trump mun gefa kost á sér öðru sinni. Forsetinn hefur ekki tjáð sig um efni skoðanagreinar Romneys að svo stöddu.