Aðspurðar hvernig hugmyndin að Lólu Flórens hafi komið upp, svarar Íris að Svava hafi misst vinnuna í byrjun árs eins og margir á Covid-tímum. „Það dugði ekkert annað en að hugsa í lausnum og galdra til okkar ný tækifæri. Við sögðum upphátt „konur eru konum bestar – við sköpum okkur störf“, og í kjölfarið sáum við auglýst húsnæðið á Garðastræti 6.“

Íris Ann og Lucas Keller stofnuðu The Coocoo’s Nest úti á Granda fyrir átta árum. Síðar bættist Luna Flórens við og svo rekstrarsamstarf við Kaffi Gauk í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur, svo hún er ekki óreynd í bransanum.

„Markmið okkar hefur verið að skapa nýja upplifun fyrir hvern stað þó að grunngildin séu alltaf þau sömu: Handunnin matarupplifun og sjálfbærni í skapandi umhverfi,“ segir Íris.

„Lóla Flórens sameinar það sem okkur finnst skemmtilegast í lífinu. Vintage fatnað, alls konar húsbúnað, ómissandi morgunkaffibollann og upplifun í góðu samtali, fatamátun og hvers vegna ekki flösku af prosecco?“ segir hún og hlær.

Nokkurs konar hjónaband


Vinskapurinn hófst fyrir kvartöld og segjast þær Íris og Svava alltaf hafa staðið saman, í gegnum súrt og sætt.

„Við höfum systrakærleik að leiðarljósi og kannski er þetta nokkurs konar hjónaband hjá okkur, en í öllum samböndum þarf að vera gagnkvæm virðing. Við höfum báðar margt til að bera og drögum fram það besta hvor í annarri, sem gefur okkur styrk til að starfa saman,“ segir Svava einlæg.

„Við höfum systrakærleik að leiðarljósi og kannski er þetta nokkurs konar hjónaband hjá okkur, en í öllum samböndum þarf að vera gagnkvæm virðing."

Þær segja góð og hvetjandi samskipti lykilinn og að á starfsmannaspeglinum séu orðin „Það gengur vel“ rituð með varalit til áminningar. Eitthvað virðist hvatningin virka því nú þegar mánuður er frá opnun segja þær viðtökurnar hafa verið stórkostlegar.

„Það er svo mikil fegurð og rómantík í að opna rekstur inni í íbúðahverfi. Við höfum þegar marga fasta viðskiptavini sem heilsa okkur með nafni og að lokum verða þeir bara kærir vinir eins og reynsla okkar er á Grandagarðinum,“ segir Íris.

Heiðra Hjálpræðisherinn


Hjálpræðisherinn var áður í 20 ár með fatasölu í húsnæðinu og langaði þær stöllur að heiðra minningu þeirrar verslunar og um leið hnýta arfleifðina saman við það sem þeim sjálfum þykir skemmtilegast.

„Hverfinu þótti leitt að sjá þau hverfa svo það kom ekki annað til greina en að vinna með það sem áður var – en á sama tíma uppfæra og bjóða upp á nýjan heim og nýja upplifun. Við skilgreinum okkur sem sjálfbæra verslun með fatnað fyrir konur, herra og börn og seljum húsgögn og húsbúnað. Það er reyndar allt til sölu hjá okkur,“ segir Svava.

Eins og fyrr segir eru þær stöllur komnar í jólaskap og vilja um helgina þakka góðar móttökur.

„Það ætlum við að gera með því að bjóða 20 prósenta afslátt af vintage fötum, skóm og töskum. Einnig verða tilboð á veitingum, flæðandi prosecco á tilboði og nokkrar nornir á sveimi, sem bjóða upp á tarot-örspá á góðu verði,“ segja þær að lokum