Björgunarsveitir hafa verið með mikla viðveru á Seyðisfirði síðustu daga eftir að aurskriður féllu í bænum.

Helgi Tómas Hall og Guðrún Katrín Jóhannsdóttir, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa verið á Seyðisfirði ásamt snjóflóðaleitahundunum Rökkva og Líf frá því á föstudaginn. Tengist viðvera fjórfætlinganna því ekki snjónum sem féll á Austurlandi í nótt.

Um er að ræða sérþjálfaða snjóflóðaleitahunda sem geta leitað af fólki ef það lendir undir skriðu eða snjóflóðum. Heppilega hefur ekki þurft að leita af fólki í skriðunum á Seyðisfirði og hafa Líf og Rökkvi því ekki haft í mörgu að snúast.

Schäferhundurinn Rökkvi er sagður vera eilítið alvörugefnari en samstarfskona sín. Myndin var tekin áður en snjór féll á Seyðisfirði.
Fréttablaðið/Anton Brink
Seyðisfjörður er snævi drifinn um þessar mundir.
Fréttablaðið/Valli

Mikill leikur var í Líf þegar blaðamann bar að garði en að sögn Guðrúnar gerir hún alltaf sitt þegar þörf er á. Þá sé Líf einnig duglegri að stríða Rökkva sem taki starfi sínu heldur alvarlegra.

Rýmingar eru áfram í gildi á Seyðisfirði vegna hættu á aurskriðum. Stór hluti Seyðfirðinga fengu að fara aftur til síns heima í gær og er komið smá líf í bæinn að nýju.

Týr, varðskip Landhelgisgæslunnar er við bryggju á Seyðisfirði ef aðstoðar er þörf.
Fréttablaðið/Valli

Áfram hafa þó 276 íbúar ekki fengið að fara heim til sín en almannavarnir og viðbragðsaðilar hafa gefið út að til greina komi að aflétta rýmingasvæðinu að hluta síðar í dag.

Áfram er unnið að því að meta það hversu stöðug hlíðin er fyrir ofan húsin á sem enn eru á skilgreindu rýmingasvæði. Er það hættusvæði enn lokað og allar mannaferðir bannaðar á svæðinu.